Breytingar ekki gerðar einhliða

Eyjólfur Lárusson, framkvæmdastjóri Allianz, segir að breytingar á skilmálum verði …
Eyjólfur Lárusson, framkvæmdastjóri Allianz, segir að breytingar á skilmálum verði ekki gerðar einhliða. Þýska ríkið þurfi að samþykkja þær. Christof Stache

Það að breyta skilmálum á tryggingarsamningum sex ár aftur í tímann er út í hött og óljóst hvað verður um slíka samninga í kjölfarið. Þetta segir Eyjólfur Lárusson, framkvæmdastjóri Allianz á Íslandi, í samtali við mbl.is, en hann segir félagið vera með túlkun frá Seðlabankanum sem sýni að viðbótartryggingarvernd sé tryggingarsamningur og þar af leiðandi þjónustusamningur. Það myndi gera samningana undanþegna gjaldeyrishöftum, en Seðlabankinn hefur sagt þessa samninga vera ólöglega og að það þurfi að skilmálabreyta þeim á næstu fjórum mánuðum.

Furðulegt að hægt sé að gera breytingar aftur í tímann

Eyjólfur segir það furðulegt að hægt sé að gera samninga ólöglega sex ár aftur í tímann, meðan sami samningur sem er undirritaður fyrir sex og hálfu ári er löglegur. Hann segir Allianz hafa fundað með Seðlabankanum í gær og með Fjármálaeftirlitinu í morgun. Þá hafi gögn um málið verið lögð fram fyrir stofnanirnar og þeim sýnt að eftir að gjaldeyrishöftin voru sett á hafi yfirvöld samþykkt samningana sem löglega.

Iðgjöld sem greidd eru til Allianz vegna trygginganna fara til Þýskalands þar sem móðurfélagið sér um alla eignastýringu til að ávaxta fjármunina. Á bakvið samninginn er trygging um endurgreiðslu lifi fólk fram yfir eftirlaunaaldur. Eyjólfur segir ljóst að þarna sé á ferð tryggingasamningur, en ekki sjóður. Því sé ekki um fjármálagjörning að ræða og því ætti þetta ekki að heyra undir fjármagnshöftin. Seðlabankinn virðist aftur á móti á annari skoðun og hefur sagt að lífeyristryggingar sem gerðar voru eftir að fjármagnshöftin voru sett á og eru í erlendri mynt, séu óleglegir.

Breytingar ekki gerðar einhliða

Seðlabankinn gaf út að gefinn yrði aðlögunarfrestur upp á fjóra mánuði fyrir félögin til að byrja að innheimta og ávaxta sparnaðinn í krónum. Aðspurður hvort Allianz sé byrjað að skoða það segir Eyjólfur að málið sé ekki svo auðvelt. „Tryggingarfélagið Allianz getur ekki komið með nýjar vörur nema að spyrja þýska ríkið um samþykki, en það setur lög um fjárfestingarheimildir tryggingafélaga.“ Hann segir að Allianz geti ekki einhliða breytt vörunum og að þær tryggingar sem nú væru í boði hefðu verið aðgengilegar í 30 til 40 ár. Segir Eyjólfur að eftirlitsstofnanir í Þýskalandi þurfi að gefa út leyfi fyrir þessum breytingum. Að hans sögn er ekki líklegt að slíkar breytingar verði gerðar á einni nóttu, enda fari mikið ferli í gang og sé þegar hafið hjá þýska fjármálaeftirlitinu.

„Hver er skaðabótaskyldur?“

Ef ekki verður veitt heimild frá Þýskalandi til að gera nauðsynilegar breytingar að mati Seðlabankans gæti svo farið að viðskiptavinir geti ekki uppfyllt ákvæði samninga og að tryggingarnar falli niður. „Hver er skaðabótaskyldur þá?“ segir Eyjólfur og bætir við að eins gott sé að Seðlabankinn sé ekki að brjóta evrópskar reglugerðir með þessu útspili sínu. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK