Ferðalag til Íslands kostar milljón

Ferðamenn við Fjallsárlón í Öræfum í sumar. Kostnaður ferðamanna við ...
Ferðamenn við Fjallsárlón í Öræfum í sumar. Kostnaður ferðamanna við að koma hingað til lands og fara hinn dæmigerða hring í kringum landið getur hæglega farið upp í eina milljón. mbl.is/Sigurður Bogi

Ætli ferðamaður sér að koma til Íslands í tvær vikur og ferðast á bílaleigubíl er kostnaðurinn fljótlega kominn upp í eina milljón. Þetta sýnir könnun sem mbl.is gerði, en skoðað var hversu mikið kostar að ferðast frá New York í Bandaríkjunum til Íslands í ágúst og ef leigður væri lítill jepplingur og keyrt hringinn í kringum landið. Þá var fundin ódýrasta gistingin á viðkomandi stöðum sem ekki var svefnpokagisting.

1.290 króna kökusneið

Í gær birti Logi Einarsson, bæjarstjórnarmaður á Akureyri, mynd á facebook þar sem hann benti á að súkkulaðikökubiti með rjóma kostaði 1.290 krónur á stað einum í Mývatnssveit. Í kjölfarið hafa spunnist umræður um hvort Íslendingar séu farnir að okra um of á ferðamönnum, en Logi segir við myndina að svör afgreiðslufólks við háu verði hafi verið á þá leið að fáir Íslendingar komi alla jafna að borða þar. 

En er verið að okra almennt á ferðamönnum sem koma hingað til lands, eða er þetta eðlileg verðlagning þegar horft er til almennra launa erlendis og þess að best er að fá sem mestar tekjur fyrir hvern ferðamann, án þess að honum finnist hann vera svikinn í viðskiptum?

Af þessum sökum lék Mbl.is forvitni á að vita hvað almennt ferðalag kostar fyrir ferðamenn  sem koma frá Bandaríkjunum og fara hringinn í kringum landið á eigin vegum og gista á miðlungsgóðum hótelum, þar sem það er hægt. Tekin eru tvö dæmi, eitt þar sem aðeins er um einstakling að ræða og annað þar sem par kemur og deilir því kostnaði við bílaleigubílinn og gistir í sama herbergi. Miðað er við leigu á jeppling frá einni af alþjóðlegu bílaleigukeðjunum. 

Einstaklingur á eigin vegum

Flugfar frá New York til Íslands 3. ágúst og til baka 17. ágúst kostar 160 þúsund krónur, en bæði var hægt að finna örlítið ódýrari ferðir ef dagsetningum var breytt og töluvert dýrari ef ferðin hitti á vinsælar dagsetningar. Bílaleigubíll í jepplingaflokki frá 4. ágúst til 17. ágúst kostar aftur á móti 475 þúsund og er stærsti hluti kostnaðarins.

Notast var við bókunarsíðurnar hotels.com og booking.com við leit að gistingu og var fundin ódýrasta gisting sem völ var á á nokkrum fyrirfram ákveðnum stöðum hringinn í kringum landið. Ef ekkert gistipláss var laust á viðkomandi stað var skoðað verð í nærliggjandi bæjarfélagi. Aðeins var horft til gistingar á hótelum eða gistiheimilum með ákveðinni lágmarksþjónustu. Heildarkostnaður við einstaklingsgistingu með þessari aðferð var 225 þúsund fyrir 13 nætur, um 17 þúsund að meðaltali á hverja nótt.

Til viðbótar við þetta bætist bensínkostnaður upp á 35 til 50 þúsund, eftir því hversu mikið er keyrt, og matarkostnaður. Hér er miðað við 4.000 að meðaltali á hvern dag, en þá er gert ráð fyrir að matarkostnaður sé innifalinn í hótelgjaldi, en borðaður sé kvöldmatur, eitthvað lítið í hádeginu og svo nesti yfir daginn. Það gerir samtals 52.000 krónur.

Fyrir tveggja vikna ferðalag er kostnaðurinn því kominn upp í tæplega 950.000 og þá er eftir kostnaður við alla afþreyingu, minjagripi og annað sem er tilfallandi. Það er því ljóst að ef einstaklingur ætlar sér að fara á þennan hátt um landið er kostnaðurinn fljótlega kominn upp í um eina milljón krónur. Þó ber að geta þess að stærsti kostnaðarliðurinn, sem er bíllinn, getur lækkað talsvert ef leigt er af ódýrari leigum sem bjóða eldri bíla. Getur munað allt að 200 þúsund krónum á slíkri leigu á þessum tíma.

Hjón ferðast hringinn

Tölurnar breytast töluvert ef tveir ferðast saman, en miðað er að öðru leyti við sömu forsendur og eru hér að ofan. Flugið er á sama verði, en gisting fyrir tvo í sama herbergi er samtals 275 þúsund, sem hægt er að deila niður á báða einstaklingana. Matarkostnaðurinn lækkar að öllu jöfn örlítið þegar fleiri ferðast saman, en ekki er um stórar upphæðir að ræða þar. Samkvæmt könnun mbl.is var samtals kostnaður fyrir tvo einstaklinga 1.190 þúsund krónur fyrir utan afþreyingu og annað tilfallandi. Það gerir tæplega 600 þúsund á hvorn.

Hafa verður í hug að hér er ekki verið að skoða verð í gegnum ferðaskrifstofur sem hafa í mörgum tilfellum fengið afslátt gegnum magninnkaup, heldur fyrir þá sem ferðast á eigin vegum. Þá eru margir sem kjósa frekar að ferðast á minnstu gerð bíla sem ekki komast t.d. í Landmannalaugar, Þórsmörk eða yfir aðra fjallvegi. 

Kostnaður í samhengi við laun í Bandaríkjunum

Meðallaun í Bandaríkjunum eru 45 þúsund dollarar á ári hjá karlmönnum og 35 þúsund hjá konum. Ef aftur á móti er horft til tekna hjá þeim sem hafa lokið háskólanámi eða eru í sérfræðistörfum, þá eru meðallaun frá um 43 þúsund upp í 82 þúsund dali á ári. Það eru um 4,9 til 9,3 milljónir, fyrir skatta, tryggingar, neyslu og afborgun lána. Ferðakostnaður hjóna með samanlagðar tekjur upp á 12 milljónir er því um 10% af árslaunum þar ytra,  en ferðakostnaður einstaklings sem hingað kemur og er með sjö milljónir í árslaun er um 14%. 

Stóra spurningin er þó hvort tekjur fólks skipti einhverju í þessu sambandi ef ferðamenn telja að þeir séu að borga mikið hærra verð fyrir sömu vöru og heimamenn á áfangastöðum sem ekki eru markaðssettir sérstaklega fyrir ferðamenn. 

Ferðamenn við Geysi
Ferðamenn við Geysi mbl.is/Golli
Ferðamenn í beljandi rigningu í Hveragerði
Ferðamenn í beljandi rigningu í Hveragerði mbl.is/Eggert
Það er ekki ókeypis að ferðast um Ísland.
Það er ekki ókeypis að ferðast um Ísland. mbl.is/Rax
mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir