Freyja stóreykur útflutning á sælgæti

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri sælgætisgerðarinnar Freyju.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri sælgætisgerðarinnar Freyju. mbl.is/Styrmir Kári

Sælgætisgerðin Freyja hefur stóraukið útflutning sinn á sælgæti, sér í lagi á lakkrís og súkkulaði, til Norðurlandanna á allra síðustu mánuðum. Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Freyju, segir að félagið hafi aukið markaðshlutdeild sína „verulega“ í Noregi, Færeyjum, Danmörku og Svíþjóð á undanförnum misserum. „Það má segja að í Noregi, Færeyjum og Svíþjóð fáist okkar vörur í öllum stórverslunum,“ segir hann í samtali við ViðskiptaMoggann.

Freyja framleiðir rétt tæplega þúsund tonn af sælgæti á ári og segir Pétur að hlutdeild útflutningsins sé um tuttugu til þrjátíu prósent.

„Við höfum verið að vinna að því í gegnum árin að byggja upp markaði erlendis og hefur útflutningur á vörum okkar stóraukist. Þetta er langhlaup. Undirbúningurinn er mjög langur og síðan allt í einu smellur þetta saman. Við höfum verið að ná góðum árangri á síðustu mánuðum,“ segir hann og bætir við:

„Við höfum lagt aukna áherslu á útflutning og flytjum nú orðið mikið á nærmarkaði Íslands. Þá má segja að hægt sé að draga línu við Hamborg í Þýskalandi. Norðan við Hamborg borða menn sælgæti eins og við, og þá helst lakkrísinn, en sunnan við borgina er smekkurinn ekki sá sami.“

Hann segir það eitt að vinna sér sess á nýjum mörkuðum, en annað að halda þar stöðu sinni.

„Þegar við erum komin inn í þessar stóru verslanir á Norðurlöndunum, þá skiptir það miklu máli að við höldum okkar hilluplássi og getum skaffað vörur. Við leggjum áherslu á það núna. Við viljum sækja fram og á nýja markaði, en jafnframt halda okkar stöðu,“ segir hann.

Veikari króna skapar tækifæri

Hann bendir einnig á að veikara gengi krónunnar eftir hrun bankanna hafi hjálpað til. „Með veikari krónu skapast tækifæri til útflutnings. Þegar krónan er á þeim slóðum sem hún var fyrir hrun, þá eiga menn í miklum erfiðleikum með að flytja út.“

Aðspurður segir hann að vörur félagsins séu seldar undir nafni Freyju í öllum löndunum nema í Noregi. Þar kallast vörumerkið Skotti. „Ástæðan er sú að hin norska Freia er til. Hún var stofnuð rétt fyrir aldamótin 1900, en við nokkrum árum síðar, eða 1918. Okkur vörur, svo sem Djúpurnar og Draumurinn, eru í rammíslenskum búningi í Noregi, en ekki undir vörumerkinu Freyja.“

Það hafa verið nokkuð erfiðir tímar á hinum íslenska sælgætismarkaði undanfarin ár. Pétur segist finna fyrir smá uppsveiflu, þótt hún sé nú ekki mikil, en bendir hins vegar á að veltan á markaðinum hafi ekki dregist mjög mikið saman í hruninu. „Fólk hefur meira sótt í íslenskt sælgæti í stað þess erlenda. Ásóknin í innlenda framleiðslu hefur aukist og þá varð innflutt sælgæti jafnframt dýrara.“

Fjögur íslensk fyrirtæki framleiða sælgæti, Freyja, Nói Siríus, Góa-Linda og Kólus, og nefnir Pétur að markaðshlutdeild Freyju hafi haldist nokkuð stöðug í 20 til 25 prósentum seinustu ár.

Freyja, sem er elsta fyrirtæki landsins á sviði sælgætisgerðar, stofnað árið 1918, er í eigu Ævars Guðmundssonar og fjölskyldu hans. Fyrirtækið framleiðir um hundrað vörutegundir og starfa um sjötíu manns hjá því.

Erfiðir hráefnismarkaðir

Aðspurður segir Pétur að ástandið á alþjóðlegum hráefnismörkuðum sé ansi dökkt. „Það hafa til dæmis verið gríðarlegar verðhækkanir á kakóefnum og er enn ekkert fyrirséð með þróunina á því. Kakóverð hefur verið að hækka mjög síðustu mánuði og það veldur okkur áhyggjum og erfiðleikum. Við höfum séð um sextíu til sjötíu prósenta verðhækkanir á hráefnum. Það er mjög erfitt að fleyta þeim hækkunum út í verðlagið, hvort sem það er hér heima eða annars staðar,“ segir hann.

Umskipti hafa átt sér stað í rekstri Freyju og segir Pétur að félagið sé loksins „komið réttum megin við núllið í fyrsta skipti í mörg ár. Útlitið er gott fyrir þetta ár. Við höfum eytt miklum tíma í tiltekt og endurskipulagningu, bæði í fjármálunum og rekstri, og þetta er afrakstur þess.“

mbl.is/Sigurgeir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK