easyJet vill áfram fjölga áfangastöðum

Ali Gayward, framkvæmdastjóri easyJet í Bretlandi.
Ali Gayward, framkvæmdastjóri easyJet í Bretlandi. Eggert Jóhannesson

Breska flugfélagið easyJet mun horfa til þess að fjölga ferðum til Íslands enn frekar á komandi árum ef eftirspurnin heldur áfram að vaxa eins og hún hefur gert. Þetta segir Ali Gayward, framkvæmdastjóri easyJet í Bretlandi, en hún kom til landsins í tilefni þess að félagið tilkynnti stórsókn á íslenska markaðinn á næstunni. Félagið ætlar að fjölga ferðum úr 52 upp í 110 á mánuði og fjölga áfangastöðum um þrjá. Með þessu verður easyJet næststærsta flugfélagið í vetur á eftir Icelandair.

Horfa til þess að bæta fleiri áfangastöðum við

Gayward segir að stefna easyJet sé að tengja saman punkta á leiðarneti fyrirtækisins og nú hefur það bætt átta stöðum við á rúmlega tveimur árum. Þetta segir hún að sé til marks um vinsældir Íslands sem áfangastaðar, en meðalsætanýting félagsins hefur verið rétt yfir 91%. „Við munum því horfa til þess að bæta fleiri áfangastöðum við í framtíðinni,“ segir Gayward.

Þýskaland, Ítalía og Frakkland

Út frá hugmyndafræðinni um að tengja punkta saman segir hún að miðað verði við það hvar easyJet sé með stærri flugmiðstöðvar við val á næstu áfangastöðum. Þannig séu Þýskaland, Ítalía, Frakkland og nokkrir staðir í Bretlandi náttúrulegir valkostir.

Það sem gerir Ísland að svona áhugaverðum áfangastað að mati hennar er að hér geta ferðamenn fengið mismunandi upplifun eftir árstíðum og þá er fjöldi af áhugaverðri afþreyingu, eins og hvalaskoðun, heitar laugar, Bláa lónið, hjólaferðir og norðurljósin. Þetta allt saman gerir Ísland að vinsælum stað meðal Breta.

Vilja tengja við efnaðri viðskiptavini

Í tilkynningu easyJet fyrr í dag var tekið fram að fyrirtækið myndi horfa sérstaklega til þess að tengja Ísland við áfangastaði þar sem mögulegir viðskiptavinir væru nokkuð efnaðir. Það væri meðal annars vegna þess að Ísland væri þrátt fyrir allt nokkuð dýr áfangastaður. Nefndi hún sem dæmi Genf í Sviss og svo Bristol og Manchester í Bretlandi.

Spurð hvort það væri ekki í andstöðu við hugmyndina með lágfargjaldaflugfélagi að sækja í efnaða ferðamenn segir Gayward að með ódýrari ferðum geri félagið fólki kleift að ferðast oftar og vera í lengri tíma, ekki endilega að þeir eyði minni peningum.

Spá áframhaldandi aukningu næstu árin

Hún segir að easyJet sé mjög bjartsýnt á framtíðarhorfur hér á landi þegar komi að fjölgun ferðamanna, en hún spái því að aukningin næstu tvö til þrjú árin verði svipuð og hún hafi verið síðustu ár. 

Frétt mbl.is: Tvöföldun á flugferðum easyJet

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir