Aldrei fleiri gestir í Bláa lónið

Nýliðinn júlímánuður var sá stærsti frá upphafi hjá Bláa lóninu. ...
Nýliðinn júlímánuður var sá stærsti frá upphafi hjá Bláa lóninu. Þrátt fyrir hækkandi verð koma um 70% ferðamanna við í lóninu. Kristinn Ingvarsson

Aðsókn í Bláa lónið hefur nokkurn veginn haldist í hendur við fjölgun ferðamanna til landsins og í ár fer gestafjöldinn líklega í um 700 þúsund. Því ætti ekki að koma á óvart að reksturinn í ár hafi gengið vel. Samhliða nærri tvöföldun ferðamannafjölda til Íslands frá árinu 2009 hefur Bláa lónið tvöfaldað verð þjónustu sinnar, án þess að hækkunin hafi veruleg áhrif á aðsókn ferðamanna í lónið. 

„Ég held að nýliðinn júlímánuður hafi verið stærsti mánuður hjá okkur frá upphafi. Árið er búið að vera mjög gott, þannig að Bláa lónið finnur fyrir þessum vexti eins og aðrir,“ segir Grímur Sæmundsen, stjórnarformaður Bláa lónsins, í samtali við mbl.is.

Sjö af hverjum tíu koma í lónið

„Við höfum verið svo lánsöm að halda alltaf í grófum dráttum sama hlutfalli þeirra ferðamanna sem koma til landsins,“ segir Grímur. Hann áætlar að um 7 af hverjum 10 tíu ferðalöngum sem leggja leið sína til Íslands komi við í Bláa lóninu.  „Þó að ferðamönnum hafi fjölgað höfum við nokkurn veginn náð að halda þessari hlutfallstölu.“

Þá leggi margir leið sína oftar en einu sinni í lónið. „Það er töluvert um að við fáum sömu gestina oftar en einu sinni í sömu Íslandsferðinni.“

Verðhækkanir hafi ekki áhrif á fjölda gesta. „Sá lærdómur sem við höfum dregið af okkar verðstefnu er sá að við vorum að undirverðleggja okkar þjónustu. Gæði þeirrar upplifunar sem við erum að veita okkar gestum eru það mikil að þessi verðlagning er eðlileg. Tölurnar hljóta að tala sínu máli.“

Tölurnar tali sínu máli

Grímur segir að vissulega finni Bláa lónið fyrir hæðum jafnt sem lægðum. 

„Í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins 2010 átti sér stað smá bakslag, þó ekki eins stórt og menn bjuggust við. Frá 2011 hefur svo verið stöðugur vöxtur í streymi ferðamanna til landsins og við höfum fylgt þessum vexti.“

Árið 2011 lögðu 565 þúsund ferðamenn leið sína til landsins, samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu, í fyrra voru þeir hinsvegar 807 þúsund og í ár er búist við yfir einni milljón ferðamanna. Því er nærri því um tvöföldun að ræða síðustu ár.

„Vöxtur okkar hefur nokkurn veginn haldist í hendur við fjölda ferðamanna til Íslands.“

Tæplega 650 þúsundir gesta heimsóttu Bláa lónið í fyrra, en Grímur áætlar að þeir verði um 700 þúsund í ár. Almennur miði í Bláa lónið kostar 5.400 krónur að vetri til og 6.200 að sumri, eða 40 evrur, sem er tvöfalt hærra verð en 2009. Þá eru ótaldar tekjur af snyrtivörum, veitingasölu og annarri þjónustu, auk sérstaks heimsóknargjalds fyrir að skoða svæðið í kringum lónið.

Að sögn Gríms var velta fyrirtækisins rétt um 5 milljarðar í fyrra og hagnaður eftir skatta 1,3 milljarðar.

Reyna að halda sér undir 3.000 á dag

„Ferðaaðilar voru farnir að selja skoðunarferðir til okkar án þess að gestirnir væru að njóta þeirrar þjónustu sem við erum að bjóða. Við settum því á heimsóknargjald, sem var til þess að stýra betur flæði þeirra gesta sem koma til okkar án þess að njóta þeirrar upplifunar sem Bláa lónið er.“

Grímur segir afrakstur gjaldsins hafa nýst vel í umhverfisframkvæmdir á svæðinu og nefnir þar uppbyggingu göngustíga milli lónsins og Grindavíkur sem dæmi. Að ferðamönnum sem koma einungis til að skoða svæðið frátöldum sé reynt að halda þeim fjölda sem fer ofaní lónið sjálft undir þremur þúsundum á dag.

Við miðum við að taka ekki á móti fleiri gestum en þrjú þúsund á dag á háönn og höfum verið að taka mjög ákveðin skref í að stýra og dreifa álaginu á sumrin til að tryggja sem besta upplifun hvers gests. Ég á von á því að við förum í frekari aðgerðir, til dæmis með verðstýringu, til að dreifa álaginu yfir daginn og vikuna. Þetta er verkefni sem er í vinnslu hjá okkur.

Grímur Sæmundsen - Hagnaður eftir skatta var um 1,3 milljarðar ...
Grímur Sæmundsen - Hagnaður eftir skatta var um 1,3 milljarðar króna í fyrra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Reynt er að stýra álagi þannig að ekki fleiri en ...
Reynt er að stýra álagi þannig að ekki fleiri en 3.000 fari ofaní lónið á dag Helgi Bjarnason
Bláa lónið - Farsæld lónsins helst í hendur við fjölda ...
Bláa lónið - Farsæld lónsins helst í hendur við fjölda ferðamanna sem koma til landsins, en hann hefur aldrei verið meiri. mbl.is/Bláa lónið
mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir