Ebay íhugar að taka við bitcoin

AFP

Netverslunarrisinn eBay vinnur nú að því að geta tekið við greiðslum í rafræna gjaldmiðlinum bitcoin, samkvæmt heimildum Wall Street Journal.

Nánar tiltekið hefur dótturfyrirtækið Braintree, sem heyrir undir Pay-Pal-arm eBay, fundað með fyrirtækjum sem hafa sérhæft sig í svokölluðum bitcoin-sölulausnum að undanförnu.

Braintree var stofnað árið 2007 og býður upp á sjálfvirkar greiðslulausnir fyrir netvarslanir. Fyrirtæki á borð við Uber og Airbnb nota hugbúnað Braintree til að taka við greiðslum.

Heimildarmenn blaðsins segja að Braintree þurfi að ná samkomulagi um samstarf við bitcoin-greiðslumiðlara og verði þá hægt að bæta gjaldmiðlinum við sem greiðslumáta í Braintree-kerfinu. Sömu heimildarmenn segja að eBay og PayPal hyggist ekki byrja að taka við bitcoin þá þegar, en það sé einungis tímaspursmál.

Það myndi auka notagildi bitcoin umtalsvert ef fyrirtæki á borð við eBay tækju við gjaldmiðlinum en hingað til hefur verið skortur á seljendum sem eru reiðubúnir til að bjóða vöru eða þjónustu í skiptum fyrir bitcoin.

Fleiri og fleiri fyrirtæki hafa hins vegar tekið við sér að undanförnu og taka nú við fjárframlögum í bitcoin. Nýlega bættist tölvurisinn Dell í þann hóp.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir