Rannsaka virkjun í Tungufljóti

Fossinn Faxi í Tungufljóti í Biskupstungum. Myndin er úr safni.
Fossinn Faxi í Tungufljóti í Biskupstungum. Myndin er úr safni. mbl.is/Einar Falur

Orkustofnun veitti í lok maímánaðar HS Orku leyfi til rannsókna á efri hluta vatnasviðs Tungufljóts í Biskupstungum í Bláskógabyggð. Stefnt er að því að auka þekkingu á aðstæðum á svæðinu til að skapa grundvöll fyrir áætlanagerð og mati á fýsileika 9 MW virkjunar.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir í samtali við mbl.is að rannsóknarferlið muni líklegast taka um tvö ár. Þá verði ákvörðun tekin um framhald málsins.

Í bréfi Orkustofnunar kemur fram að leyfið feli ekki í sér heimild til nýtingar eða virkjunar á svæðinu. Heimilt sé að veita leyfi tengd orkurannsóknum og stunda orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskyldar vegna virkjunarkosta sem ekki hefur verið tekin afstaða til í gildandi verndar- og orkunýtingaráætlun, eins og gildir um Tungufljót í Biskupstungum.

Ásgeir segir að málið sé skammt á veg komið, enn á algjöru frumstigi. Viðræður standi yfir við landeigendur og verið sé að undirbúa rannsóknir.

Rask verði í lágmarki

Í áliti Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna málsins er lögð áhersla á að allt rask verði í lágmarki og engir vegir lagðir. Þá bendir stofnunin á að þrjú svæði á náttúruminjaskrá liggi að Tungufljóti. Svæðin liggi þó nokkuð frá fyrirhuguðu rannsóknarsvæði en Náttúrufræðistofnun telur hins vegar mikilvægt að gerð sé grein fyrir því hvort fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir geti haft áhrif á svæðin. Annars gerir stofnunin engar athugasemdir við fyrirhugaðar rannsóknir.

Orkustofnun tekur undir þau sjónarmið og segir mikilvægt að öllu raski verði haldið í lágmarki. Hún leggur jafnframt áherslu á að gengið sé um svæðið af mestu varkárni og í samræmi við náttúruverndarlög.

„Þá telur Orkustofnun mikilvægt að þess sé gætt, komi ekki til nýtingar síðar meir, að frágangur verði með þeim hætti að ummerki vegna mögulegra framkvæmda vegna rannsókna á svæðinu verði fjarlægð,“ segir jafnframt í bréfi Orkustofnunar.

Á eftir að fara í umhverfismat

„Við metum það svo að þetta sé tiltölulega einfalt verkefni sem hafi í för með sér mjög lítið rask á nærliggjandi umhverfi. Málið á síðan eftir að fara alla leið í gegnum ferlið og það kemur í ljós í umhverfismatinu hvort það hafi einhver áhrif á nærliggjandi svæði,“ segir Ásgeir.

Eins og áður sagði verður uppsett afl líklega í kringum 9 MW en skoðaðir hafa verið í forathugun valkostir frá um 4 MW til 14 MW. Í forathuguninni er enn fremur gert ráð fyrir rennslivirkjun með inntakslón sem yrði að mestu leyti í farvegi Tungufljóts. Einungis er gert ráð fyrir dægurmiðlun í inntakslóninu. Rannsóknarleyfið miðast við að kanna hagkvæmni virkjunarinnar en síðan þarf að fara í umhverfismat og fá bæði virkjana- og framkvæmdaleyfi.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku. Ljósmynd/Oddgeir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK