Veitir 20 atvinnu og veltir 350 milljónum

Traust þekking í Borgarnesi.
Traust þekking í Borgarnesi. mbl.is/Traust þekking

„Hjá okkur vinna um fimmtán til tuttugu manns og eru flestir þeirra búsettir í Borgarnesi,“ segir Trausti Einarsson vélaverkfræðingur, forstjóri og eigandi fyrirtækisins Traust þekking ehf. í Borgarbyggð. Fyrirtækið er eitt fyrsta nýsköpunarfyrirtækið hér á landi, stofnað 1978. Starfsemin hefur frá upphafi snúist um að hanna og framleiða vélbúnað fyrir matvælavinnslu, einkum í sjávarútvegi. Þá veitir fyrirtækið ráðgjöf á þessu sviði. Fyrsti búnaðurinn sem Trausti hannaði og framleiddi var til vinnslu loðnuhrogna.

Skortir skilning

Starfsemi Traustrar þekkingar hefur fengið litla athygli fjölmiðla en þegar haft er í huga hve stór vinnuveitandi það er í sinni heimabyggð og að ársveltan er nú um 350 milljónir króna, tekjurnar mestar í erlendum gjaldeyri, blasir við að hér er um mikilvægt fyrirtæki að ræða.

Trausti segir að starfsemi fyrirtækisins mætti gjarnan njóta meiri skilnings, bæði frá stjórnvöldum og lánastofnunum. Hann segir að fyrirtæki á landsbyggðinni sitji ekki við sama borð og fyrirtækin á höfuðborgarsvæðinu hvað lán og lánakjör snerti. Jafnvel lán frá Byggðastofnun séu með óheyrilega háum vöxtum sem ekkert fyrirtæki í eðlilegri starfsemi geti borið til lengdar. Rétt fyrir hrun fékk Traust þekking 180 milljóna króna lán frá Íslandsbanka til að byggja nýtt verksmiðjuhús í Borgarnesi sem brýn þörf var á. Sjálft lagði fyrirtækið tugi milljóna í framkvæmdina af eigin fé. En þegar gengið hrapaði hækkaði lánið í 600 milljónir króna. Staðan varð óviðráðanleg. Fyrirtækið fékk ekki fyrirgreiðslu til að vinna úr þessum vanda og varð að byrja reksturinn frá grunni að nýju. Það hefur spjarað sig ótrúlega vel og skilar arði á hverju ári, en hann fer að mestu í að greiða niður lán og annan kostnað við enduruppbygginguna.

Fjölbreytt framleiðsla

Framleiðsluvörur Traustrar þekkingar eru fjölbreytilegar eins og sjá má á heimasíðu fyrirtækisins. Sem dæmi má nefna sprautuvélar, söltunarkerfi, vinnslulínur, rækjuverksmiðjur, skelverksmiðjur, reykverksmiðjur og löndunarkerfi fyrir síld, loðnu og makríl með fiskidælum og færiböndum. Allur er þessi búnaður hannaður hjá fyrirtækinu og byggist á hugviti og þekkingu sem þar er til staðar.

Nýjasta framleiðsluvaran er skurðarvél sem sker afurðirnar í fyrirfram ákveðnar stærðir eftir eðlisþyngd hráefnisins. Notuð er þrívíddar leysitækni til að greina lögun hráefnisins og reiknar vélin skammtastærðir út frá löguninni og þyngdinni. Skurðarvél þessi hentar til skurðar á fiski og beinlausum kjötafurðum. Að þessari vél hefur verið unnið í tvö ár og er fyrsta vélin þegar seld til Spánar. Önnur ný framleiðsluvara Traustrar þekkingar er afsöltunarvél. Um er að ræða nýja aðferð við að afsalta fisk í saltfiskframleiðslu. Afsöltunarvélin endurnýtir salt sem ekki nýtist við vinnslu og eykur þar af leiðandi nýtingu á hráefni til mikilla muna.

Traust þekking í Borgarnesi.
Traust þekking í Borgarnesi. mbl.is/Traust þekking
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK