Veltan er vel yfir hálfum milljarði á ári

Sjávarfangið er heillandi, ungir sem eldri fylgjast með af eftirvæntingu.
Sjávarfangið er heillandi, ungir sem eldri fylgjast með af eftirvæntingu. Mynd/Sæferðir

Ferðaþjónustufyrirtækið Sæferðir er í hópi öflugustu atvinnuveitenda í Stykkishólmi. Fyrirtækið gerir út Breiðafjarðarferðuna Baldur sem siglir allt árið til Brjánslækjar með viðkomu í Flatey. Þá rekur það bátinn Særúnu sem siglir um Breiðafjörð með ferðafólk sem vill skoða og njóta fuglalífs og náttúru. Við höfnina í Stykkishólmi eru Sæferðir síðan með minjagripaverslun og kaffistofu.

Öflugur vinnuveitandi

„Sæferðir eru mikilvægt fyrirtæki fyrir Stykkishólm og Snæfellsnes,“ segir Páll Kr. Pálsson stjórnarformaður í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að ársveltan sé vel yfir hálfan milljarð króna. Fyrirtækið skilar hagnaði, en hefur fram að þessu ekki greitt eigendum arð heldur nýtt féð til uppbyggingar og fjárfestinga.

„Stöðugildin hjá okkur allt árið eru fimmtán,“ segir Páll, „síðan ráðum við fólk aukalega til starfa yfir háannatímann. Þetta eru þá kannski 35 til 40 manns hjá okkur,“ segir hann.

Annatíminn hefur lengst

Sæferðir voru stofnaðar árið 1986 og hétu þá Eyjaferðir. Hjónin Pétur Ágústsson og Svanborg Sigurgeirsdóttir hafa annast reksturinn frá upphafi. Lengi vel var starfsemin bundin við sumarmánuðina, en nú er einhver starfsemi allt árið. Ferðamenn koma fyrr á vorin og straumurinn er alveg fram í október. Yfir veturinn koma síðan ferðahópar og einstaklingar á eigin vegum.

Meðal nýjunga í starfsemi Sæferða eru hinar svokölluð Viking Sushi-ferðir og einnig er boðið upp á sérstakar veisluferðir fyrir hópa. Þá hafa Sæferðir tekið upp samstarf við fyrirtækið Láki-tours um hvalaskoðun frá Ólafsvík. Hvergi hér við land eru möguleikar á að sjá jafn margar tegundir af hvölum og við utanvert Snæfellsnes. Steypireyður, langreyður, hnúfubakur, hrefna og háhyrningar eru algengir á þessum slóðum.

Reksturs Baldurs hefur frá upphafi verið kjarninn í starfsemi Sæferða. Núverandi ferja, sem tekin var í notkun árið 2006, er hætt að anna farþega- og bílafjöldanum og hefur fyrirtækið fest kaup á nýrri ferju í Noregi. Getur hún flutt 60 bíla í hverri ferð í stað 40 núna. Skipið hefur verið í siglingum í Lofoten og uppfyllir öll skilyrði norskra siglingamálayfirvalda. Yfirvöld hér hafa hins vegar gert athugasemdir, sem forráðamenn Sæferða segja óljósar, og gæti það leitt til truflunar á áætlunarsiglingum um Breiðafjörð, þar sem búið var að semja um að lána Baldur til að leysa Herjólf af í siglingum til og frá Vestmannaeyjum frá og með næstu helgi. Páll Kr. Pálsson sagðist vonast til að þetta mál leystist í næstu viku.

Hlaðborð upp af sjávarbotni

Í svonefndum Viking sushi-ferðum Sæferða býðst farþegum á siglingu um Breiðafjörð færi á að bragða á góðgætinu úr hafinu sem er veitt í ferðinni. „Þá skröpum við af sjávarbotninum og upp kemur hlaðborð. Fólk getur þá smakkað ígulker og hörpuskel beint úr sjónum og út af Viking sushi-þemanu setjum við wasabi, sojasósu, engifer og prjóna með. Þú færð ekkert ferskara en þetta,“ segir Nadine Walter, markaðs- og sölustjóri Sæferða.

Ferðirnar hafa hlotið góðar viðtökur og segir Nadine að jafnvel þeir sem hafi ekki lyst á að smakka hafi gaman af því að sjá hvað kemur upp af sjávarbotninum. „Þetta er okkar sérstaða. Fólk getur farið í margar bátsferðir á Íslandi en það getur hvergi fengið að fylgjast með svona veiðum og enn síður að smakka ferskan mat beint upp úr sjónum,“ segir Nadine.

Frá vinstri: Pétur Ágústsson, Svanborg Sigurgeirsdóttir og Páll Kr. Pálsson, …
Frá vinstri: Pétur Ágústsson, Svanborg Sigurgeirsdóttir og Páll Kr. Pálsson, stjórnarformaður. Ljósmynd/Gunnlaugur Árnason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK