Áfengi í lægra þrepið?

Röng tekjuskráning áfengis er vandamál.
Röng tekjuskráning áfengis er vandamál. mbl.is/Árni Sæberg

Röng tekjuskráning er stórt vandamál í veitingaþjónustu og mældist frávikið um fjörtíu og tvö prósent árið 2013. Hækkun neðra þreps virðisaukaskatts og lækkun þess efra er skref í rétta átt til þess að bæta skráningu að mati Jóns Bjarna Steinssonar og Árna Sverris Hafsteinssonar, höfunda skýrslu um skattaumhverfi í ferðaþjónustu.

Í rannsókninni skoðuðu þeir meðal annars áfengissölu á veitingastöðum, krám og hótelum og báru saman við tollskráningu og tölur hjá innflytjendum. Mældu þeir svokallað veltufrávik, sem er uppgefin velta borin saman við uppreiknað söluverðmæti þess áfengis sem vínveitingarstaðir kaupa inn. Mældist það 42 prósent árið 2013 og 45 prósent árið þar á undan.

Í skýrslunni er talið að stóran hluta veltufráviksins megi rekja til rangrar skráningar áfengra drykkja í sjö prósent þrep virðisaukaskattsins í stað 25,5 prósent þrepsins, þar sem það ætti með réttu að vera. Þá er önnur aðferð að selja blandaða áfenga drykki í tvennu lagi; Óáfenga hlutann í lægra þrepinu og áfenga hlutann í því efra.

Blómleg kaffisala á krám

Jón Bjarni og Árni Sverrir voru með erindi á fundi sem Félag viðskipta- og hagfræðinga stóð fyrir á Grand Hótel í gær undir yfirskriftinni „Pína eða sjálfstætt framlag - skattlagning í ferðaþjónustunni“.

Til þess að skýra frávikið settu þeir fram hlutfall uppgefinnar 25,5 prósent veltu hjá mismunandi formum veitingaþjónustu. Þar kom fram að veltan er einungis um 31 prósent hjá þeim stöðum sem skilgreina sig sem krár, kaffihús og dansstaði en einungis 17 prósent hjá veitingastöðum. „Það er spurning hvort þessir staðir séu með svona blómlega kaffisölu í hádeginu,“ sögðu þeir.

Íslendingar eru Evrópumeistarar í bili á milli virðisaukaskattþrepa og er það svo mikið að menn sjá sér mikinn hag í því að „hliðra“ vörum og þjónustu á milli skattþrepa að mati Jóns og Árna en skref í rétta átt er stigið með ætluðum breytingum á lögum um virðisaukaskatt.

Áfengi í lægra þrepið

Þeir telja þó að ganga mætti lengra í breytingunum. „Við hefðum viljað sjá áfengi fara í neðra þrepið og að áfengisgjöldin yrðu frekar hækkuð á móti,“ sögðu þeir og bættu við að erfiðara væri að komast hjá skattinum með þeim hætti.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, talaði einnig á fundinum, og tók í sama streng. „Alls staðar þar sem rangir hvatar birtast í skattkerfinu þurfum við að staldra við. Tölurnar benda til þess að verið sé að fara á skjön við reglurnar í veitingahúsastarfsemi og ég er sammála því að allar þessar reglur ættu að taka tillit til þess hvernig líklegt sé að fólk hegði sér,“ sagði hann.

Dýra rauðvínið tiltölulega ódýrt

Þá sagði hann það vera hugmynd til skoðunar að færa áfengið í neðra þrepið og breyta áfengisgjaldinu á móti. „Ég er hins vegar ekki búinn að átta mig á því hvað þetta þýðir fyrir „gjaldastrúktúrinn“ og það þyrfti að skoða það. Þá á ég til dæmis við hvernig það kæmi út fyrir ólíka verðflokka áfengis, en í dag er ódýrt vín tiltölulega dýrt miðað við í öðrum löndum vegna þess að áfengisgjaldið er föst krónutala og tekur ekki tillit til þess hversu dýr t.d. rauðvínsflaskan er og verður þannig til þess að dýrara vínið er tiltölulega ódýrt. Það þarf aðeins að skoða þau mál,“ sagði Bjarni.

Færa mætti áfengi í lægra þrep virðisaukaskatts og hækka áfengisgjöld …
Færa mætti áfengi í lægra þrep virðisaukaskatts og hækka áfengisgjöld á móti. Heiðar Kristjánsson
Fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson
Fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK