CCP og GreenQloud í samstarf

Jón Viggó Gunnarsson, rekstrarstjóri sýndarheima hjá CCP, og Jón Þorgrímur …
Jón Viggó Gunnarsson, rekstrarstjóri sýndarheima hjá CCP, og Jón Þorgrímur Stefánsson, forstjóri GreenQloud, við undirritun. Mynd/GreenQloud

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP og GreenQloud sem sérhæfir sig í hugbúnaði fyrir tölvuský hafa gert með sér samning um að nota QStack™ hugbúnaðinn frá GreenQloud til að sjá um innra upplýsingatækniumhverfi CCP.

Upplýsingatæknikerfi CCP er mjög umfangsmikið og spannar fjölda gagnavera í mörgum löndum en CCP notar nú QStack til að sameina utanumhald, stýringu og nýtingu á sínum tölvubúnaði í einni lausn.

QStack er heildarskýjalausn til að stýra upplýsingatækniumhverfum fyrirtækja og sameinar kosti sýndarumhverfa, hefðbundinna netþjóna og sjálfvirkni tölvuskýja. CCP mun meðal annars nýta QStack til að fá heildarsýn á alla notkun á upplýsingatækniumhverfi fyrirtækisins og sýnilega skiptingu á milli deilda, verkefna og einstakra notenda. QStack eykur einnig öryggi skýjaumhverfisins og notar núverandi innra öryggiskerfi fyrirtækisins í sjálfsafgreiðsluviðmóti QStack sem starfsmenn fyrirtækisins nota í vinnu sinni á umhverfinu.

„CCP er frábært dæmi um viðskiptavin sem er að alltaf að leita að  lausnum til að stýra sínu rekstrarumhverfi á sem hagkvæmastan hátt með sveigjanleika skýjalausna innanhús,“ er haft eftir Jóni Þorgrími Stefánssyni, forstjóra GreenQloud í tilkynningu.

„CCP vantaði lausn til að stýra ört vaxandi upplýsingatækniumhverfi okkar á sem bestan og hagkvæmastan máta. Við vildum fá skýra kostnaðarskiptingu á milli deilda og þeirra verkefna sem við erum að vinna að í hvert skipti. Með QStack getum við stjórnað innanhúss upplýsingatækniumhverfunum okkar ásamt þeim ytri sýndarvélum sem við setjum upp t.d í Amazon tölvuskýinu með einu vefviðmóti í QStack,“ sagði Jón Viggó Gunnarsson, rekstrarstjóri sýndarheima hjá CCP.

Fyrsta græna tölvuskýið

GreenQloud var stofnað árið 2010 og var fyrst fyrirtækja í heiminum að bjóða grænt tölvuský sem keyrir á sjálfbærri orku. Í byrjun árs hóf fyrirtækið að bjóða vöruna QStack, sem er hugbúnaður til að reka „einkatölvuský“ (e. Private Cloud) með góðum árangri. Helstu eiginleikar lausna GreenQloud eru einfalt en öflugt notendaviðmót ásamt því að bjóða uppá leiðandi vefþjónustu (API) til að stýra vefþjónum gagnavera.

Helstu eigendur félagsins eru stofnendurnir, þeir Eiríkur Sveinn Hrafnsson og Tryggvi Lárusson, Keel Investments LLC og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins. Fyrirtækið hefur auk þess hlotið nokkra ríkisstyrki, meðal annars styrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís og Impru styrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Advania og Verne Global eru stærstu hýsingaraðilar GreenQloud á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK