Sæstrengur til Bretlands mjög arðsamur

FARICE-1 sæsímastrengurinn tekinn í land á Vestdalseyri við Seyðisfjörð, úr ...
FARICE-1 sæsímastrengurinn tekinn í land á Vestdalseyri við Seyðisfjörð, úr ítalska kapalskipinu Pertinacia. Sæstrengur milli Íslands og Bretlands gæti verið mjög arðsamur samkvæmt Hagfræðideild Landsbankans. Steinunn Ásmundsdóttir

Sæstrengur milli Íslands og Bretlands gæti skilað mjög góðri arðsemi og umtalsverðu hreinu gjaldeyrisinnstreymi til þjóðarbúsins. Sæstrengur gæti því haft töluverð jákvæð áhrif á lífskjör hér á landi og á skuldastöðu þjóðarbúsins.

Í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans kemur fram að hins vegar sé það ljóst að arðsemi verkefnisins og þar með líkur á því að af því verði, sé einkum háð því hvort hægt verði að semja við breska ríkið um fast verð á raforkunni til langs tíma. „Óformlegar viðræður milli Landsvirkjunar og breskra stjórnvalda benda til þess að töluverður áhugi sé fyrir verkefninu af hálfu Breta en óvissan tengist fyrst og fremst raforkuverðinu,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Hvers vegna vilja Bretar semja við Íslendinga?

„Bretum er eðlilega mjög umhugað um orkuöryggi en vilja einnig auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa í sinni raforkuframleiðslu. Ef ekki kemur til stóraukningar á uppsettu afli í Bretlandi mun orkuöryggi þeirra verða ógnað í náinni framtíð. Breska ríkið býður því upp á staðlaða samninga sem kveða á um fast verð til framleiðenda endurnýjanlegrar raforku á Bretlandi,“ segir í Hagsjánni. Samningar Breta eru verðtryggðir og yfirleitt til 15 til35 ára en verðið er breytilegt eftir því hvernig raforkan er framleidd og tekur að ákveðnu leyti tillit til framleiðslukostnaðar. Fyrir vatnsafl eru greidd 100 pund á MWst, 145 pund fyrir jarðvarma og 95 fyrir vindorku sem virkjuð er á landi en 155 pund á MWst fyrir vindorku sem virkjuð er á hafi. „Mögulegt er að þessi verð, eða svipuð, standi íslenskum raforkuframleiðendum til boða,“ segir þar.

Heildarhagnaður á bilinu 137 til 337 milljarðar króna

Ef gert er ráð fyrir að þessi verð standi Íslendingum til boða myndi verðið vera um 121 GBP á MWst miðað við hlutfallslegt vægi nýrra vatnsafls-, jarðvarma- og vindorkuvirkjana hér á landi. National Grid, breskt ríkisfyrirtæki sem sér um dreifingu á raforku á Bretlandi, spáir því að eftir 23 ár verði almennt verð á raforku komið upp í 77 GBP á MWst. Ef gert er ráð fyrir að 8 ára fjárfestingartíma og að þeim tíma liðnum tæki við 15 ára samningur við Breta á verðinu 80 GBP á MWst og að þeim tíma liðnum væri verð á markaði 77 GBP á MWst sem héldi sér næstu 25 ár væri þarna verið að tala um 40 ára tekjutíma á verkefninu.

„Núvirði slíks samnings væri 137 milljarðar króna miðað við 8% ávöxtunarkröfu á heildarfjármagn í innlendum fjárfestingum. Náist að semja um verðið 121 GBP á MWst verður núvirðið hins vegar 337 milljarðar. Jafnvel þó að einungis fengjust tekjur í 15 ár og engar tekjur eftir þann tíma væri núvirðið á verkefninu samt 65 milljarðar króna.“

Bretar eiga fleiri kosti

Í nýrri greiningu ENTSO-E (The European Network of Transmission System Operators for Electricity) á tengimöguleikum raforkukerfa Evrópu er birt yfirlitsmynd með mögulegum samtengingum evrópskra orkumarkaða. Þar er m.a. bent á tengimöguleika milli Bretlands annars vegar og Spánar, Frakklands, Belgíu og Hollands hins vegar. Augljóst er því að Bretar eiga ýmsa möguleika á að uppfylla orkuþörf sína og að raforka um sæstreng frá Íslandi er ekki eini kosturinn sem kemur til greina.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir