Þvælast á milli stofnana

Því fylgir stíft og dýrt ferli að opna lítið fyrirtæki.
Því fylgir stíft og dýrt ferli að opna lítið fyrirtæki. Eggert Jóhannesson

„Menn þurfa að þvælast á milli stofnana og fá vottorð frá þessum til að fá vottorð frá hinum. Það hefur ekki verið horft heildstætt á myndina,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda og bendir á að þungt geti verið í vöfum að stofna lítið fyrirtæki vegna íþyngjandi kvaða í lögum og reglugerðum. „Við erum almennt fylgjandi því að litlum og meðalstórum fyrirækjum sé gert lífið heldur auðveldara,“ segir hann.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá síðasta ári segir að endurskoða eigi regluverk atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni að leiðarljósi. Markmiðið sé að minnka skrifræði og einfalda samskipti við opinbera aðila um leið og kostnaði sé haldið niðri.

„Við vitum ekki til þess að einni einustu reglugerð eða lagabókstaf hafi verið breytt í framhaldi af þessari stefnumörkun ríkisstjórnarinnar,“ segir Ólafur.

Aðgerðir döguðu uppi

Á síðasta ári lagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fram frumvarp til laga um aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni. Átti frumvarpið að vera liður í að hrinda í framkvæmd fyrrgreindum lið úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt frumvarpinu átti ráðuneytum, ríkisstofnunum og sveitarfélögum að vera skylt að bera allar lagabreytingar og breytingar á stjórnvaldsfyrirmælum sem hafa umtalsverð áhrif á atvinnulíf eða samkeppni undir svokallað regluráð.

Var markmiðið að rýna í löggjöfina og skoða hvernig hægt væri að koma málum fyrir með skilvirkari hætti. Frumvarpið dagaði hins vegar uppi á þinginu.

Ekki hugað að samspilinu

„Okkur finnst að það mætti gjarnan veita þessu málefni meiri athygli og lýsum eftir því að áformin í stjórnarsáttmálanum verði látin fram ganga. Að það verði raunverulega eitthvað gert til þess að létta fyrirtækjum lífið,“ segir Ólafur. „Oft er verið að setja reglur fyrir einungis hluta af starfsemi fyrirtækja án þess að hugað sé að því hvernig þær spila saman við annað eftirlit eða aðrar íþyngjandi kvaðir,“ segir hann.

„Öll grisjun í þessum reglugerðarfrumskógi myndi að sjálfsögðu gera mönnum auðveldara fyrir að hefja rekstur og þar með auka framleiðni, nýsköpun og líklega hagvöxt,“ segir Ólafur.

Frétt mbl.is: Hverfispöbb eða Smáralind

Ólafur Stephensen.
Ólafur Stephensen. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK