LÍÚ heyrir sögunni til

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, á síðasta aðalfundi félagsins í dag.
Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, á síðasta aðalfundi félagsins í dag. Mynd/Árni Sæberg

Síðasti fundur Landssambands íslenskra útgerðarmanna (LÍÚ) fór fram í dag en á morgun verður það sameinað Samtökum fiskvinnslustöðva (SF) undir heitinu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Útlit er fyrir að Jens Garðar Helgason verði formaður sameinaðs félags en hann er sá eini sem boðið hefur sig fram til verksins.

Tekið verður þó við mótframboðum fram að stofnfundinum á morgun sem hefst klukkan 10:00.  Adolf Guðmundsson, formaður LÍU, mun þá stíga til hliðar, enda tilkynnti hann að hann myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku innan samtakanna þegar hann seldi útgerðina Gullberg á Seyðisfirði til Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Jens er fædd­ur árið 1976 og upp­al­inn á Eskif­irði. Hann hefur starfað hjá Fiski­miðum ehf. á Eskif­irði frá árinu 1999 og tók við starfi fram­kvæmda­stjóra fyr­ir­tæk­is­ins árið 2001.

Taka sig í gegn

Við erum að taka okkur alveg í gegn,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ, aðspurður hvort stefnubreytinga sé að vænta hjá nýju félagi. „Ástæðan fyrir sameiningunni er sú að okkur þykir þessi tvö félög sem hafa verið starfandi á sviðinu hafa skort þá breidd sem þarf til að ræða um sjávarútveginn eins og hann er í dag,“ segir hann. „Í staðinn fyrir að horfa á veiðarnar einar og sér erum við að horfa á mengið allt,“ segir Kolbeinn.

Þá segir hann að horft verði á atvinnuveginn til lengri tíma með umhverfissjónarmið og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. „Hvernig ætlum við að tryggja það að við getum lifað á þessu til lengri tíma og hvernig ætlum við að fræða fólk um þau tækifæri sem í þessu felast,“ segir vera spurningar sem svarað verður í stefnumálum nýja félagsins.

Aðspurður hvort sameiningunni fylgi einhverjar mannabreytingar segist hann ekki búast við neinni byltingu en þó hafi félagið ekki verið stofnað né hafi ný stjórn verið kjörin og vildi því ekkert fullyrða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir