500 krónu mynt í stað seðils

Mun 500 krónu seðillinn brátt heyra sögunni til?
Mun 500 krónu seðillinn brátt heyra sögunni til? Nærmynd

500 krónu seðillinn mun í náinni framtíð væntanlega víkja fyrir 500 krónu mynt að því er fram kemur í tímaritinu Fjármálainnviðir sem Seðlabanki Íslands gaf út í dag. Þar segir að um þrjú prósent af verðmæti seðla í umferð séu 500 krónu seðlar og að hlutur þeirra hafi minnkað hægt og rólega síðustu ár. Ein ástæða minni notkunar sé að hann hafi verið tekinn úr mörgum hraðbönkum síðustu misseri.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands er enginn undirbúningur vegna þessa þó hafinn. Væri þetta einfaldlega eðlilegt skref ef verðþróun verður áfram með sama hætti.

Þá segir einnig að færa megi fyrir því rök að tími 1, 5 og 10 króna mynteininganna sé liðinn. Myntin sé efnismikil og dýr í framleiðslu miðað við kaupmátt hennar. „Tímabært er því orðið að endurmeta stöðu verðminnstu myntanna,“ segir í greininni. Þetta sé í samræmi við þróunina á öðrum Norðurlöndum sem dregið hafa úr notkun á verðlítilli mynt af hagkvæmisástæðum.

Sparnaður í reiðufé eftir hrun

Í ritinu segir að Ísland hafi lengi verið í hópi þeirra landa þar sem notkun reiðufjár sé minnst. Þegar Seðlabanki Íslands var stofnaður var hlutfall reiðufjár í umferð um fimm prósent af vergri landsframleiðslu. Síðan lækkaði hlutfallið jafnt og þétt og var orðið um eitt prósent árið 1983. Í kjölfar fjármálaáfallsins árið 2008 jókst hins vegar reiðufé í umferð umtalsvert og náði hámarki árið 2012 er það nam 2,4 prósentum af vergri landsframleiðslu. Síðan þá hefur það farið lækkandi.

Svo virðist sem heimilin varðveiti meira af eignum sínum í formi reiðufjár í dag en gert var fyrir árið 2008 og gera má ráð fyrir að þeir seðlar sem notaðir eru í þeim tilgangi séu að miklu leyti 5.000 krónu seðlar. Þessi ályktun Seðlabankans er studd gögnum frá seðlagreiningu bankans sem sýnir að um 44 prósent allra 5.000 krónu seðla í umferð var eytt í árslok á árunum fyrir hrun. Á árunum þar á eftir ef hlutfallið einungis 19 prósent.

Smámyntin gæti einnig horfið á braut.
Smámyntin gæti einnig horfið á braut. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir