Hærra raforkuverð jákvætt

Frá haustfundi Landsvirkjunar í Hörpu í dag.
Frá haustfundi Landsvirkjunar í Hörpu í dag. Mbl.is/Árni Sæberg

Mikil eftirspurn er eftir íslenskri raforku og getur það leitt til hærra raforkuverðs. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir það jákvætt fyrir íslenskt samfélag þar sem verðið myndi samt sem áður teljast samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði. „Raforkan er í rauninni okkar útflutningsvara og því væri það til góðs á sama hátt og til dæmis hærra fiskverð á meðan umhverfið er ennþá samkeppnishæft,“ sagði hann og benti á að arðgreiðslugetan til þjóðarbúsins hækki gríðarlega með smávægilegri verðhækkun.

Kalla eftir rammaáætlun

Þetta kom fram á haustfundi Landsvirkjunar sem haldinn var í Hörpu í dag. Kallað var eftir skýrri sýn í rammaáætlun stjórnvalda. Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, sagði það skipta miklu máli fyrir virkjunaraðila. „Þetta eru ekki ótakmarkaðar lindir og við þurfum að huga að okkar gæðum. Þetta snýst um hvernig við ætum að nota þetta okkur til hagsældar en við þurfum um leið að gæta að náttúru okkar og sjálfbærni,“ sagði Ragna „Hverju er fórnað og hvað fáum við í staðinn?“ spurði hún. Aðspurð sagði hún seinagang við vinnu rammaáætlunar þó ekki hafa haft neikvæð áhrif á rekstur Landsvirkjunar. Að minnsta kosti ekki ennþá. „Við bendum einfaldlega á að nú sé til staðar eftirspurn og teljum brýnt að taka um þetta ákvarðanir,“ sagði Ragna.

Auknar arðgreiðslur til þjóðarbússins

Hörður benti á að efnahagur Landsvirkjunar væri traustur og að samanlögð fjármunamyndun á síðustu fjórum árum væri um 100 milljarðar króna, þar af hafa nettóskuldir lækkað um 50 milljarða og fjárfest hefur verið fyrir 50 milljarða á sama tíma. „Ef á fer sem horfir getum við dregið úr niðurgreiðslu og aukið arðgreiðslur. Með hækkandi raforkuverði er ljóst að forsendur eru fyrir aukinni fjármunamyndum,“ sagði hann. 

Ný og spennandi tækifæri

Rætt var um nýja virkjunarkosti sem meðal annars fylgja hlýnun jarðar og þar af leiðandi auknu vatnsafli. Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri á þróunarsviði benti á að spár gera ráð fyrir að jöklarnir bráðni á næstu 100 til 200 árum. „Þetta eykur vinnslumöguleika vatnsafls enn frekar og hægt verður að stækka núverandi virkjanir,“ sagði hann. Margrét Arnardóttir, verkefnastjóri vindorku, benti þá einnig á mikil tækifæri sem felast í nýtingu vindorkunnar. Sagði hún nýtnihlutfallið í vindmyllunum tveimur sem settar voru upp í tilraunaskyni í desember 2012 við Búrfell vera um 42 prósent en heimsmeðaltalið er um 28 prósent. Er því ljóst að nýtingarhlutfallið er með því hæsta sem gerist í heiminum. 

Hörður sagði viðræður um sæstreng vera á forathugunarstigi og að verið væri að kanna viðskiptahliðina. Hann sagði undirbúninginn taka að lágmarki um tvö til þrjú ár auk þess sem það tæki um fimm ár að leggja hann. Samkvæmt því má telja ljóst að sæstrengur yrði í fyrsta lagi tilbúinn á árinu 2022. Þá benti Hörður einnig á að ákvörðun stjórnvalda um sæstreng þyrfti fyrst að liggja fyrir, en ljóst væri þó að áhuginn væri mikill erlendis frá. 

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Golli
Möguleikar Íslands eru miklir í raforkusölu.
Möguleikar Íslands eru miklir í raforkusölu. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir