Snubbótt svar stjórnvalda

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ef þetta er svar til okkar um það sem við höfum verið að gagnrýna er ljóst að það er heldur stutt og snubbótt,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, um tillögur ríkisstjórnarinnar til fjárlaganefndar um breytingar á fjárlagafrumvarpinu, þar sem meðal annars er lagt til að virðisaukaskattur á matvæli verði hækkaður úr 7% í 11%, í stað 12%.

„Við erum á móti þessum matarskatti en ef það á að gera þetta verður að leggja meiri fjármuni í mótvægisaðgerðir, þannig að það komi lágtekjufólki sérstaklega til góðs. Þetta er bara eitthvað hálfkák,“ segir hann. „Ég get ekki séð að það að hækka matarskatt um átta milljarða í staðinn fyrir tíu og leggja fjögur hundruð milljónir í húsaleigubætur eða eitt þúsund milljónir í barnabætur komi neitt til móts við þá gagnrýni sem við höfum haft uppi,“ segir Gylfi.

Minnkar bætur 1.200 fjölskyldna

„Það er alveg ljóst að það að seinka skerðingu framlaga vegna örorkubóta um hálft ár en afnema þær samt á næstu fjórum árum mun leiða til verulegrar skerðingar lífeyrisréttinda minna félagsmanna,“ segir hann. „Svo er því haldið því til streitu að skerða bótarétt þeirra sem eru langtímaatvinnulausir um sex mánuði, sem minnkar bætur um 1.200 félaga Alþýðusambandsins um u.þ.b. eina milljón hjá hverri fjölskyldu,“ segir Gylfi.

Þá segist hann ekki skilja tillöguna varðandi starfsendurhæfingu. „Samkvæmt samkomulagi okkar við stjórnvöld ætti að leggja í þetta 1.100 til 1.200 milljónir á næsta ári en það var skorið alveg út og nú er tillaga um að leggja í sjóðinn 200 milljónir,“ segir hann. „Ég átta mig ekki alveg á því.“

Gylfi segir ríkisstjórnina einfaldlega þurfa að falla frá fyrrgreindum atriðum og leggja meira í mótvægisaðgerðir. „Ég ætla ekki að lýsa því að væntingarnar hafi verið hátt reistar en ég get ekki séð að þetta sé koma til móts við nokkurn skapaðan hlut," segir hann.

Gylfi segir það ekki breyta nokkru að hækka matarskatt í …
Gylfi segir það ekki breyta nokkru að hækka matarskatt í 11% í stað 12%. Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK