Íslenskur athafnamaður ársins í Svíþjóð

Þórður Erlingsson, stofanandi InExchange.
Þórður Erlingsson, stofanandi InExchange. Eyþór Árnason

Þórður Erlingsson, eigandi hugbúnaðarfyrirtækisins InExchange, var valinn athafnamaður ársins 2014 í Skaraborg-héraðinu í Svíþjóð af þarlendum samtökum atvinnulífsins. Þórður segir verðlaunin vera mikinn heiður.

Almenningur gat tilnefnt hvern sem er til verðlaunanna og valdi dómnefnd í kjölfarið fimm einstaklinga sem aftur var hægt að kjósa á milli. Var þetta gert í hverju héraði í Svíþjóð og verður sigurvegari síðar valinn úr þeirra hópi, sem hlýtur titillinn „Athafnamaður ársins“.

220 þúsund viðskiptavinir

InExchange sérhæfir sig í rafrænum reikningum fyrir fyrirtæki á netinu og vex hraðast allra netfyrirtækja í Svíþjóð þegar litið er til veltunnar. Fyrirtækið er með stóra markaðshlutdeild á öllum Norðurlöndum ásamt viðskiptavinum víða um heim. Um þúsund fyrirtæki bætast í kúnnahópinn á hverjum degi að sögn Þórðar en viðskiptavinirnir eru í dag alls 220 þúsund talsins. Þórður segir þjónustuna virka líkt og Facebook að því leyti að fyrirtæki geta sent hvort öðru „vinabeiðnir“ og í kjölfarið skipst á upplýsingum og greiðslum.

Þórður segir verðlaunin vera veitt þeim sem hafa áhuga á vexti „og við höfum ekki áhuga á neinu öðru. Við viljum byggja þjónustuna enn frekar upp og gera viðskiptin betri,“ segir hann.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir