Heimilin verða af hundruðum milljóna

Bankarnir lækkuðu vexti en juku vaxtamun.
Bankarnir lækkuðu vexti en juku vaxtamun. mbl.is

Stóru viðskiptabankarnir þrír lækkuðu vexti sína í kjölfar lækkunar stýrivaxta í nóvember en juku hins vegar vaxtamuninn. Innlán skila því minni ávinningi og útlán lækka ekki eins mikið og efni standa til. Afleiðingarnar eru þær að heimilin í landinu verða af hundruðum milljóna króna. 

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti úr 6% í 5,75% þann 5. nóvember sl. en þeir höfðu áður verið óbreyttir í um tvö ár. Þegar líða tók á mánuðinn lækkuðu bæði innláns- og útlánsvextir allra stóru bankanna þriggja. 

Vextirnir tóku hins vegar ekki alveg sömu breytingum. Þannig lækkuðu innlánsvextir um 0,3% stig hjá Arion banka en útlánsvextir aðeins um 0,2% stig. Hið sama er uppi á teningnum hjá Landsbankanum, þar lækkuðu innlánsvextir um 0,25% stig en útlánsvextir aðeins um 0,15% stig. Íslandsbanki lækkaði vexti á innlánum sínum um 0,3% stig og útlánsvexti um 0,25% stig. Þetta kemur fram í tilkynningu frá VR.

Bankarnir græða tæpan milljarð

Hagfræðingur VR hefur reiknað út áhrifin af þessum breytingum. Tekjur bankanna aukast um tæplega milljarð króna vegna þessara breytinga, gróflega áætlað. Seðlabankinn áætlar að um þriðjungur inn- og útlána bankanna séu til heimilanna í landinu sem verða því af hundruðum milljóna króna.

Þegar stýrivextir Seðlabankans héldust óbreyttir tóku vextir bankanna þó breytingum. Vaxtamunur Arion banka hefur til að mynda aukist um 0,20%, bara á þessu ári. Hjá Landsbankanum og Íslandsbanka hefur hann aukist um 0,15%. 

Ekki í þágu viðskiptavina

Bankarnir hafa þannig allir breytt vaxtatöflum sínum án þess að stýrivextir Seðlabankans hafi tekið breytingum. Þegar stýrivextir lækkuðu hins vegar nú í byrjun nóvember nýttu bankarnir tækifærið og juku enn mun á útláns- og innlánsvöxtum. 

„Við hljótum að spyrja á hvaða forsendum bankarnir tóku þessa ákvörðun? Það er erfitt að sjá að það hafi verið í þágu okkar viðskiptavinanna. Fyrirheit um aukinn kaupmátt launafólks verða að engu þegar bankarnir geta með einu pennastriki tekið ávinning vaxtalækkana til sín á þennan hátt,“ segir í tilkynningu VR.

Hús verslunarinnar.
Hús verslunarinnar. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK