365 miðlar og Tal hafa sameinast

mbl.is/Ómar

365 miðlar og Tal hafa nú sameinast undir merki 365. Samkeppniseftirlitið heimilaði samruna félaganna í dag.

Haft er eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra 365, í fréttatilkynningu að í kjölfar þessarar sameiningar verði unnt að bjóða nýjungar, sem ekki hafi sést áður á fjarskiptamarkaðnum, neytendum til hagsbóta.

„Miklar breytingar eru að verða á afþreyingar- og fjarskiptamarkaði og sameinuð munu félögin geta boðið viðskiptavinum sínum upp á spennandi lausnir. Til að mynda eru miklar breytingar framundan á dreifingu sjónvarpsefnis þar sem snjalltæki eru í auknum mæli að taka við hlutverki hinna hefðbundnu myndlykla.“

Petrea Ingileif Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Tals, tekur undir með Sævari. 

„Þetta hefur verið langt og strangt ferli og það er mikið ánægjuefni fyrir starfsmenn félaganna að nú hafi samruninn verið samþykktur,“ er haft eftir Petreu Ingileif Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Tals, í fréttatilkynningu. „Ég hlakka til að setjast í framkvæmdastjórn sameinaðs félags og starfa á ný með Sævari forstjóra.“

Eina áþreifanlega breytingin fyrir viðskiptavini félaganna fyrst í stað er sú að Tal mun flytja með skrifstofu og verslun úr Grímsbæ í höfuðstöðvar 365 í Skaftahlíð. Þar með verður stigið fyrsta skrefið í að samþætta þjónustu beggja fyrirtækjanna.

Viðskiptavinir 365 og Tals  nota sömu samskiptaleiðir og áður til að hafa samband við fyrirtækin. Viðskiptavinir 365 hringja áfram í 512-5100 og fara inn á 365.is til að nálgast upplýsingar um vörur og þjónustu. Það sama gildir um viðskiptavini Tals, þeir hringja áfram í 1817 og fara inn á tal.is.

Nýjar áherslur sameinaðs félags verða kynntar strax á nýju ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK