AGS segir að leysa þurfi upp Íbúðalánasjóð

Stjórnvöld eru sögð þurfa að huga að því að leysa …
Stjórnvöld eru sögð þurfa að huga að því að leysa upp Íbúðalánasjóð með skipulegum hætti til að lágmarka kostnað ríkisins og kerfisáhættu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir helsta viðfangsefnið á sviði hagstjórnar á Íslandi vera að styrkja fjárhagsleg tengsl landsins við umheiminn. Árangur á þessu sviði sé forsenda fyrir hagvexti og hagkvæmari fjárfestingarkostum fyrir heimili og fyrirtæki landsins.

Þetta kemur fram í lokayfirlýsingu sendinefndarinnar eftir vinnu hennar hér á landi síðustu daga. Sendinefndin hefur verið hér á landi í Article IV heimsókn og sinnt fimmtu eftirfylgni AGS við efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda. 

Veikleikar enn fyrir hendi

Jákvæðar horfur í efnahagsmálum ættu að styðja við áætlun um losun fjármagnshafta að mati nefndarinnar. „Dregið hefur úr hagvexti á árinu, en innlend eftirspurn er kröftug. Ef litið er fram á veginn er útlit fyrir að einkaneysla muni styrkjast vegna skuldaleiðréttingar og lægra innflutningsverðs. Fjárfestingar einkageirans ættu að ná sér aftur á strik eftir fjármálaáfallið.“

Nefndin telur þó að veikleikar séu enn fyrir hendi. „Eftirmál fjármálaáfallsins eru enn nokkur og hefur það áhrif á hagvöxt og dregur úr ytri stöðugleika. Af innlendum áhættuþáttum ber meðal annars að nefna óvissu vegna losunar fjármagnshafta, töluverðan þrýsting á launahækkanir í komandi kjaraviðræðum, lagaleg viðfangsefni vegna skatta á fjármálafyrirtæki og framkvæmd verðtryggingar og veika stöðu Íbúðalánasjóðs. Óvissa ríkir um ytri skilyrði, meðal annars vegna áhættu sem tengd er minni eftirspurn í helstu viðskiptalöndum og verðhjöðnunaráhrifa.“

Stjórnvöld eru sögð þurfa að huga að því að leysa upp Íbúðalánasjóð með skipulegum hætti til að lágmarka kostnað ríkisins og kerfisáhættu. Jafnframt ætti að leita samstöðu um helstu félagsleg markmið íbúðalána áður en arftaka stofnunarinnar verður komið á fót.

Árangur kemur fram í samkomulagi við LBI

Sendinefndin segir skynsamlegt að taka varfærin skref til losunar fjármagnshafta í ljósi ástands heimsbúskaparins jafnhliða áframhaldandi stefnufestu og styrkingu innviða, en þar með talinn er sjálfstæður seðlabanki, haldgóðar ríkisfjármálareglur og traustar varúðarreglur og varúðarráðstafanir. Nefndin fagnar því átaki sem gert hefur verið til undirbúnings áætlunar um losun fjármagnshafta og segir árangurinn koma fram í samkomulagi við LBI og bættum skilningi á þeim vanda sem tengdur er viðfangsefninu. „Leiðin sem valin verður í nýrri áætlun um losun fjármagnshafta mun móta Ísland til framtíðar.“

Peningastefnan er þá sögð vera í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans og nýleg vaxtalækkun er talin hæfileg í ljósi þess að raunvextir hafa hækkað sakir minnkandi verðbólgu og lækkandi verðbólguvæntinga ásamt nokkuð hægari hagvexti. „Framvegis við vaxtaákvarðanir ætti að vega að kostgæfni þrýsting vegna launahækkana og  minni slaka í hagkerfinu á móti verðhjöðnunaráhrifum frá útlöndum. Kaup Seðlabankans á gjaldeyri á markaði til að byggja upp gjaldeyrisforða ættu að halda áfram eftir því sem aðstæður leyfa áður en fjármagnshöftum er létt.“

Mikilvægar endurbætur á virðisaukaskattkerfinu

Fjárlög ársins 2015 eru talin í samræmi við markmið um lækkun skulda en áhætta er enn til staðar. Fjárlög miða að afgangi hins opinbera sem svarar til 0,2% af VLF. Möguleg áhætta er þó sögð felst í hugsanlegum lögsóknum vegna skatta á banka og auknu tapi Íbúðalánasjóðs, „en auk þess gera fjárlög ráð fyrir hóflegum launahækkunum og öðrum útgjöldum sem gætu raungerst með öðrum hætti í væntanlegum kjarasamningum. Áframhaldandi agi í ríkisfjármálum til meðallangs tíma ásamt kröftugum hagvexti mun bæta á varasjóði, auka traust og stuðla að lægri vöxtum.“ Samþykki á frumvarpi til laga um opinber fjármál myndi að mati nefndarinnar stuðla að mikilvægri styrkingu á umgjörð opinberra fjármála og hæfni til að uppfylla viðmið sem aftur eykur traust erlendra fjárfesta.

Stjórnvöld hafa hafið mikilvægar endurbætur á virðisaukaskattkerfinu. „Hærra þrepið er með því hæsta og lægsta þrepið meðal þess lægsta sem gerist í OECD- ríkjunum. Margskonar undanþágur veikja hins vegar skilvirkni kerfisins sem tæki til tekjuöflunar. Tillögurnar um endurbætur hafa einhver áhrif á tekjudreifingu en aðrar ráðstafanir í ríkisfjármálum sem eru markvissari til jöfnunar ætti að nota samhliða. Til meðallangs tíma ætti að endurbæta virðisaukaskattkerfið til að eyða veikleikum í uppbyggingu  þess.“    

Bankarnir standa styrkir

Bankarnir eru taldir standa styrkir en mikilvægt er talið að viðhalda hárri eigin- og lausafjárstöðu til að mæta losun fjármagnshafta jafnframt því að mæta aukinni áhættu. Óvissa tengd arfleifð fjármálaáfallsins og lagaáhættu, þar á meðal kærumálum vegna verðtryggingar, kalla á skynsamlega ráðstöfun hagnaðar og aukna langtímafjármögnun hjá fjármálastofnunum. Sendinefndin hvetur Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið til að halda áfram að þróa álagspróf sem byggjast á efnahagslegum og fjármálalegum grunni.

Sendinefndin heldur blaðamannafund á Kjarvalsstöðum klukkan 10.
Sendinefndin heldur blaðamannafund á Kjarvalsstöðum klukkan 10. Kristinn Ingvarsson
Mikilvægt er að taka varfærin skref til losunar fjármagnshafta.
Mikilvægt er að taka varfærin skref til losunar fjármagnshafta. mbl.is/Árni Sæberg
Sendinefndin segir stjörnvöld hafa hafið mikilvægar endurbætur á virðisaukaskattkerfinu.
Sendinefndin segir stjörnvöld hafa hafið mikilvægar endurbætur á virðisaukaskattkerfinu. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK