50% aukning í dagsferðir

Þrátt fyrir að flestir hafi það náðugt yfir jólahátíðarnar og lalli í rólegheitum milli jólaboða er nóg að gera hjá starfsfólki í ferðaþjónustu.

Fjöldi ferðamanna sem sækir Ísland heim hefur farið vaxandi og segir Rúnar Garðarsson, rekstrarstjóri Iceland Excursions 50% aukningu hafa verið í farþegafjölda í dagsferðir út frá Reykjavík.Segir hann allt stefna í að viðlíka aukning á farþegafjölda verði um áramótin.

 „Það er búið að vera mikið að gera yfir jólin og fullt í flestar ferðir. Vinsælustu ferðirnar eru Gullhringurinn, Bláa lónið og hestaferðir. Einnig er mjög vinsælt að fara í norðurljósaferðir þegar veður leyfir,“ segir Rúnar.

Hvað uppruna ferðamannanna varðar segir Rúnar aukinn fjölda fólks frá Asíu vera einna mest áberandi miðað við síðustu jól. 

Stórar helgar í desember

Bjarni Gaukur vaktstjóri hjá Reykjavík Excursions tekur í svipaðan streng. Segir hann lítið hafa verið um farþega í flugrútunni í gær en að þess meira væri að gera í dagsferðunum.

„Gærdagurinn var aðeins stærri en venjulegur sunnudagur hjá okkur en helgarnar hafa verið mjög stórar í desember. Mikið um dagsferðir og túra.“

Segir Bjarni að alls hafi átta rútur flutt farþega í ferðir tengdar gullna hringnum í gær. „Mér virðist vera mikið af fólki frá Evrópu og Bandaríkjunum. Það er líka vinsælt meðal fólks frá Asíu sem búsett er í Evrópu að skreppa hingað yfir jólin enda eru þetta oft ekki helgidagar hjá þeim.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK