Villur í tölvukerfum ollu hækkunum

Villur í tölvukerfum ollu því að vörur voru auglýstar á …
Villur í tölvukerfum ollu því að vörur voru auglýstar á hækkuðu verði eftir áramót þrátt fyr­ir út­söl­ur, virðis­auka­skatts­lækk­an­ir á efra þrepi og af­nám vöru­gjalda. Kristinn Ingvarsson

Vörugjöld hafa verið felld niður í sumum verslunum, en á öðrum stöðum á breytingin eftir að fara í gegn. 

Dæmi um vörur sem báru 20% vörugjald og eiga að lækka í verði um 18% eftir breytingar á lögum um virðisaukaskatt og vörugjöld sem tóku gildi nú um áramótin eru uppþvottavélar. Þrátt fyrir það hafa ýmsar verslanir þvert á móti hækkað verð á slíkum tækjum á heimasíðum sínum eftir áramótin. Forsvarsmenn þessara verslana segja villur í tölvukerfum þó hafa valdið hækkununum og ítreka að með þessu sé ekki verið að reyna að blekkja viðskiptavini.

„Þetta eru mannleg mistök“

Bosch búðin auglýsti Bosch SKS 51E01EU uppþvottavél á 79.900 krónur fyrir jól, en á heimasíðu fyrirtækisins var hún auglýst á 99.900 krónur fyrstu dagana eftir áramót, og það sagt vera 20% lækkun. Ólafur F. Óskarsson, verslunarstjóri Bosch búðarinnar, segir um villu á heimasíðunni hafa verið að ræða, en verðið hafi ekki uppfærst eftir áramót. Því hafi þó verið breytt nú, og nýtt verð sé 79.900 krónur.

Ólafur segir verðbreytingar hafa verið gerðar þann 14. október sl. í versluninni og vörugjöldum aflétt. Þá hafi verði verið breytt til áramóta, og það verð hafi átt að standa til dagsins í dag sem er fyrsti opnunardagur verslunarinnar á nýju ári. „Þetta verð átti aldrei að koma upp hjá okkur. Það hreinlega gleymdist að framlengja til dagsins í dag,“ segir Ólafur.

Þá segir hann vefsíðuna ekki bjóða upp á þann möguleika að tengja „20% verðlækkun“ í texta við verðbreytingar sem breytast sjálfkrafa eftir dagsetningu og því hafi hann hangið inni þrátt fyrir að verðið hefði hækkað. „Það var í raun innsláttarvilla á síðunni og mannleg mistök. Þess vegna leit þetta þannig út að við hefðum hækkað verðið en samt talað um 20% afslátt.“

Ekkert selt nema á lækkuðu verði

Aðspurður segir Ólafur engin brögð hafa verið í tafli, enda sjáist alltaf í gegnum slíkar blekkingar. Hann segir fólk þó oft fljótt að setja verslanir í snöruna ef eitthvað sýnist vera í ólagi. „Auðvitað var þetta ekki í lagi hjá okkur og það er bara þannig. En það er ákveðinn skaði þegar svona fer á Facebook og við verðum bara að lifa við það,“ segir hann, en verðbreytingunum hafði verið deilt í pistli á Facebook um helgina.

Ólafur segir að ákveðið hafi verið að halda verði með 20% lækkuninni, auk örlítillar verðlækkunar vegna virðisaukaskattsbreytingar til viðbótar. Starfsmenn verslunarinnar vinni að því að breyta verði til klukkan 13, þegar verslunin verður opnuð. „Það verður ekkert selt í dag nema á lækkuðu verði, og við breytum bæði vörugjöldunum og virðisaukaskattinum.“

Verðið hafði ekki uppfærst

Fleiri dæmi um uppþvottavélar sem auglýstar voru á hækkuðu verði eftir áramótin voru Scandomestic SFO-2200 uppþvottavél hjá Heimilistækjum og Exquisit GSP-106D uppþvottavél hjá Rafha. Sú fyrrnefnda var auglýst á 49.996 krónur fyrir jól, en eftir áramót hafði verðið á heimasíðunni verið hækkað í 69.995 krónur. Þegar leitast var eftir svörum frá Heimilistækjum kom í ljós að það átti eftir að uppfæra verðið á heimasíðunni, og er útsöluverð vörunnar nú 39.995 krónur.

Síðarnefnda vélin hafði verið auglýst á 39.900 krónur fyrir jól en var merkt á 49.900 krónur á vefsíðu Rafha fyrir helgi. Þegar leitast var eftir svörum kom í ljós að „verðið hafði ekki uppfærst á þessari vél“ og var því þarf af leiðandi breytt. Nýtt almennt verð vörunnar er 39.900 krónur, eða sama verð og fyrir jól.

Dæmi um vörur sem báru 20% vörugjald og eiga að …
Dæmi um vörur sem báru 20% vörugjald og eiga að lækka í verði um 18% eftir breytingar á lögum um virðisaukaskatt og vörugjöld sem tóku gildi nú um áramótin eru uppþvottavélar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK