Flugfreyjurnar fá 60 þúsund í grunnlaun

Primera Air hefur fengið flugrekstrarleyfi í Lettlandi.
Primera Air hefur fengið flugrekstrarleyfi í Lettlandi.

Grísku flugfreyjurnar sem hafa starfað hjá Primera Air á Íslandi frá áramótum voru ráðnar sem verktakar í gegnum starfsmannaleigu á Guernsey og eru með um 60 þúsund krónur í grunnlaun, eða 400 evrur á mánuði, auk þess að fá prósentu af sölu um borð í vélinni. Þá voru flugmenn einnig ráðnir inn með sama hætti og starfa sem verktakar þó launin séu hærri.

Þetta segir Sigríður Ása Harðardóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, sem bendir á að þróunin sé varhugaverð þar sem samkeppni flugfélaga verður ekki á sama grundvelli þegar launakostnaður er með þessum hætti. Þá segir hún flugfreyjurnar standa réttindalausar gagnvart flugfélaginu. „Við lítum þetta mjög alvarlegum augum og erum að skoða málið,“ segir hún.

31 starfsmanni sagt upp

Sigríður segir félagið hafa verið í sambandi við stéttarfélög flugliða í Svíþjóð og Danmörku sem starfsfólk Primera hafði aðild að áður en starfsemi flugfélagsins var flutt til Lettlands og hefur upplýsingar um ráðningarsamninginn þaðan. Mbl greindi frá því á dögunum að Primera hefði sagt upp samn­ing­um við ís­lenska flugliða flug­fé­lags­ins en hins veg­ar tekið á leigu íbúðir á Ásbrú í Kefla­vík fyr­ir að minnsta kosti sex grísk­ar flug­freyj­ur sem ráðnar voru til starfa á veg­um áhafna­leigu um ára­mót­in. Alls hefur 31 starfsmanni Primera á Íslandi verið sagt upp störfum frá því í september auk starfsmanna félagsins í Danmörku og Svíþjóð. 

Trúnaðarmaður VR hjá Pri­mera Air sagði í samtali við mbl að um félagslegt undirboð væri að ræða þar sem flugfreyjurnar séu á mun lægri launum en þær íslensku voru.

Hæpið að þær teljist verktakar

Grísku flugfreyjurnar voru ráðnar í gegnum áhafnaleiguna „Flight Crew Solutions Limited“ á Guernsey sem verktakar. Í ráðningarsamningi þeirra sem kallaður er „verktakasamningur“ segir að „verktakinn staðfesti að hann hafi enginn réttindi sem starfsmaður“ og ber honum sjálfum að skila inn sköttum og launatengdum gjöldum.

Hæpið er að flugfreyjur geti að réttu verið ráðnar sem verktakar samkvæmt upplýsingum frá VR þar sem vinnan er unnin með vélum og tækjum þess sem kaupir vinnuna og á hans starfsstöð, þ.e. í flugvél flugfélagsins, auk þess sem vinnutíminn er yfirleitt ákvarðaður af flugfélaginu sjálfu, þ.e. brottfarartímarnir. Er því að líkum um svokallaða gerviverktöku að ræða þar sem flugfreyjurnar hafa í raun réttarstöðu launamanns. Þá ættu launin að vera mun hærri í ljósi þess að starfsmaðurinn ber sjálfum að standa skil á tryggingum og öðrum greiðslum sem atvinnurekanda væri annars skylt að greiða að sögn VR.

Bera skattskyldu á Íslandi

Samkvæmt upplýsingum frá Deloitte er almennt talið að sá njóti starfskrafta þess sem ráðinn er í gegnum starfsmannaleigu beri í raun ábyrgð á honum og ætti starfsmaðurinn þannig að vera skattskyldur á Íslandi.

Primera air stendur nú í að flytja þann hluta starfseminnar sem verið hefur hér á landi, til Lettlands en fyrirtækið býður þó ekki upp á flugferðir til eða frá Lettlandi.

Primera leigir íbúðir á Ásbrú fyrir grísku flugfreyjurnar.
Primera leigir íbúðir á Ásbrú fyrir grísku flugfreyjurnar. Oli Haukur
Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK