Stofna 4 milljarða framtakssjóð

Landsbréf.
Landsbréf.

Landsbréf og SA Framtak GP hafa stofnað nýjan 4 milljarða framtakssjóð sem mun fjárfesta í íslenskum sprota- og vaxtarfyrirtækjum. Sjóðurinn kallast Brunnur vaxtarsjóður slhf., og er ætlað að fjárfesta í íslenskum sprota- og vaxtarfyrirtækjum.

Hann verður rekinn verður í formi samlagshlutafélags og hluthafar í sjóðnum eru Landsbankinn, sjö lífeyrissjóðir, nokkrir einkafjárfestar, auk SA Framtaks GP sem er jafnframt ábyrgðaraðili samlagshlutafélagsins. Landsbréf munu annast rekstur sjóðsins í samstarfi við SA Framtak GP. Sjóðstjórar sjóðsins eru þeir Helgi Júlíusson frá Landsbréfum ásamt Sigurði Arnljótssyni og Árna Blöndal frá SA Framtaki GP.

100 - 500 milljóna framlag

Sjóðurinn mun á næstu þremur til fimm árum fjárfesta í íslenskum sprota- og vaxtarfyrirtækjum og lögð verður áhersla á gjaldeyrisskapandi fyrirtæki sem hafa burði til þess að vaxa og auka tekjur sínar hratt án þess að kostnaður hækki að sama skapi. Þær atvinnugreinar sem einkum verður horft til eru: hugbúnaður, veflausnir, afþreyingariðnaður, hátækni, líftækni, orkuiðnaður, sjávarútvegstækni og matvælaframleiðsla. Áhersla verður lögð á að fyrirtækin búi yfir samkeppnisforskoti í formi þekkingar, einkaleyfis eða viðskiptahugmyndar og að frumkvöðlateymið sé framúrskarandi á sínu sviði. Áætlað er sjóðurinn muni fjárfesta í 10 til 15 fyrirtækjum og að hver fjárfesting verði á bilinu 100 til 500 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn verði í flestum tilvikum leiðandi fjárfestir og að fulltrúar hans muni setjast í stjórn þeirra fyrirtækja sem fjárfest verður í.

Aukinn áhugi fjárfesta

„Við sjáum mörg tækifæri í íslenskum sprota- og vaxtarfyrirtækjum. Það á m.a. rætur að rekja til þess að hér er mikið framboð af spennandi fjárfestingakostum en lítið hefur verið um fjármagn,“ er haft eftir Árna Blöndal, hjá SA Framtaki GP, í tilkynningu.

„Stofnun sjóðsins er ánægjuleg vísbending um aukinn áhuga fjárfesta á nýsköpun og þeim tækifærum sem felast í því að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Við þökkum hluthöfum Brunns það traust sem þeir sýna okkur með áskriftarloforðum í sjóðinn. Mikill undirbúningur liggur að baki verkefninu og við höfum átt gott samstarf við starfsmenn SA Framtaks um stofnun sjóðsins,“ er jafnframt haft eftir Helga Þór Arasyni, framkvæmdastjóra Landsbréfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK