Lendingarleyfin milljarða virði

mynd/Icelandair

Virði lendingarleyfa Icelandair á Heathrow flugvelli í London er mögulega hátt í sextán milljarðar króna og hefur hækkað umtalsvert á síðustu árum. Flugbrautirnar hafa verið fullbókaðar um árabil og félög sem vilja bjóða upp á flug þangað eða fjölga ferðum geta það aðeins með því að kaupa komuleyfi af öðrum.

Þetta kemur fram í frétt Túrista. Þar segir að komuleyfin séu sjaldan boðin til sölu og verðmæti þeirra sé því óljóst. Í síðustu viku seldi hins vegar skandinavíska flugfélagið SAS eitt af sínum leyfum og fékk sextíu milljónir dollara fyrir samkvæmt frétt Børsen en söluverðið jafngildir nærri átta milljörðum króna. 

Ef leyfi Icelandair eru á álíka eftirsóttum dagspörtum er verðmæti þeirra því hátt í sextán milljarðar. Forsvarsmenn SAS hafa ekki gefið upp á hvaða tíma dags leyfið sem selt var gildir fyrir.

Í frétt Túrista er þá jafnframt bent á að fyrir þremur árum hafi verið haft eftir forstjóra Heathrow að dæmi væri um að komuleyfi á vellinum hafi verið seld fyrir um fimm milljarða króna. Miðað við upphæðina sem SAS fékk þá hefur verðmæti eignar Icelandair hugsanlega hækkað um sextíu prósent frá því í ársbyrjun 2012. Virðið hefur hins vegar nærri tvöfaldast í dollurum talið.

Ekki til sölu

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við Túrista að að ekki standi til að selja leyfin á Heathrow og færa starfsemi félagsins í London alfarið yfir á aðra flugvelli.

Félagið flýgur allt að sjö sinnum í viku til Gatwick og tvisvar á dag til Heathrow.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK