Snyrta skeggið eins og víkingar

Þór Hilmarsson og Öðinn Löve, stofnendur Vikingr.
Þór Hilmarsson og Öðinn Löve, stofnendur Vikingr.

„Það er algeng mýta að víkingar hafi verið einhverjir villimenn. Þvert á móti benda heimildir til þess að þeir hafi hirt um hár og skegg og verið merkilega vel snyrtur þjóðflokkur,“ segir Þór Hilmarsson, sem ásamt Óðni Löve hefur þróað íslenskar skeggvörur sem byggjast á skegghirðuhefðum norrænna manna.

Vörurnar eru framleiddar í nafni Vikingr skeggvörur, sem er nýtt íslenskt sprotafyrirtæki, sem þeir félagar stofnuðu í desember síðastliðnum. Vikingr framleiðir skeggsnyrtivörur á borð við skeggolíu og skeggvax, og koma fyrstu vörurnar á markað í þessum mánuði, sjálfum Mottumars.

Einungis hráefni frá Norðurlöndum

Þór segir skeggvörurnar einungis innihalda hráefni og aðferðir sem finnast á Norðurlöndunum, þ.á m. kaldpressaða repjuolíu frá Þorvaldseyri, sem er auðug að E-vítamíni, og ilmolíur á borð við furu, rósmarín og vallhumal. Lokaafurðin er síðan framleidd á Grenivík.

Hann viðurkennir að þeir ekki hafi verið að finna upp hjólið með framleiðslu á skeggsnyrtivörum, en hins séu ekki til aðrar vörur í þessum anda. „Við sækjum í þennan reynslugrunn og þessar hefðir. Við sækjum í ilmgjafa og lækningajurtir sem eru þekktar á Norðurlöndum og hafa reynst vel,“ segir hann.

Vandamál fylgja fallegu skeggi

Þór og Óðinn eru báðir reynsluboltar þegar skeggvöxtur er annars vegar og bendir Þór á að myndarlegum skeggvexti fylgi oft miður skemmtilegir fylgikvillar. „Skeggkláði og skeggflasa eru algeng vandamál,“ segir Þór. „Skeggið er okkar eigin ull sem ver okkur gegn veðri og vindum og heldur á okkur hita. Í staðinn þarfnast það viðhalds og mikið skegg kallar á mikla fitu frá húðinni sem þá er skilin eftir þurr og viðkvæm,“ segir hann.

„Í fornleifauppgrefti finnast oft skegggreiður og annað sem bendir til þess að víkingar hafi hugsað vel um skeggið sitt. Þeir héldu því við og fléttuðu það gjarnan eða skreyttu. Sem er hið eðlilegasta mál því skeggið nýttist þeim vel og hélt á þeim hita,“ segir Þór.

Vikingr er opinber styrktaraðili Mottumars og munu 100 krónur af hverri vöru renna til Krabbameinsfélagsins. Að auki verður í boði að kaupa vörurnar í gegnum netverslun Krabbameinsfélagsins og rennur þá allur ágóði til átaksins. Þá verða vörur frá Vikingr einnig á meðal þeirra vinninga sem sigurvegarar Mottumars hljóta.  

Allur ágóði af sölu á skeggolíunni og skeggvaxinu rennur til …
Allur ágóði af sölu á skeggolíunni og skeggvaxinu rennur til Krabbameinsfélagsins séu vörurnar keyptar í gegnum netverslun þeirra. Vörurnar verða einnig í almennri sölu og renna þá 100 krónur til málefnisins.
Þór segir víkinga hafa hirt vel um skeggið sitt.
Þór segir víkinga hafa hirt vel um skeggið sitt.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK