Er lottó vonlaus fjárfesting?

Það getur borgað sig að kaupa allar raðir en potturinn ...
Það getur borgað sig að kaupa allar raðir en potturinn þarf að vera ansi stór. AFP

Er lottó góð fjárfesting? Nei, segir Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins og bendir á að líkurnar á vinningi séu einn á móti 658.008. „Á mælistiku fjárfestinga þýðir þetta að við erum með vænta ávöxtun upp á mínus 65 prósent.“

Þetta kom fram á Popup ráðstefnu um fjármálalæsi í Háskólanum í Reykjavík í dag. Ráðstefnan er hluti alþjóðlegrar fjármálalæsisviku sem haldin er í yfir eitt hundrað löndum. Markmið vikunnar er að vekja ungt fólk til umhugsunar um fjármál sín og gefur þeim tól og tæki til að móta eigin framtíð.

Getur borgað sig að kaupa allar raðir

Jón Þór bætti þó að að lottó þyrfti ekki í öllum tilvikum að vera slæm fjárfesting þar sem vinningar sem ekki ganga út bætast við vinningsfjárhæð næstu viku. Ef uppsafnaður pottur er nægilega stór getur þátttaka í lottó haft jákvæða ávöxtun. Áhættan sé þó alltaf til staðar.

„Villtasta fjárfestingarhugmyndin væri að kaupa allar raðir,“ sagði Jón Þór en það myndi kosta 85.541.040 krónur. Þá væri kaupandinn öruggur með fyrsta vinning auk annarra minni vinninga. „Ef potturinn er nægilega stór getur þetta borgað sig,“ sagði hann.

Skilja ákvarðanatökuna

„En hvers vegna kaupum við lottó óhikandi en ekki hlutabréfin?“ spurði Jón Þór og vísaði til þess að ákvarðanataka byggi oftast á öðru af tveimur atriðum. „Annars vegar tökum við ákvarðanir sem byggja á innæi og tilfinningum en hins vegar tökum við ákvarðanir sem byggja á skynsemi,“ sagði Jón Þór og benti á að fleira geti þó dregið fólk til lottómiðakaupa en bara mögulegur ávinningur. Spenna, skemmtun auk þess sem fólk sé að styrkja gott málefni hafi áhrif.


„En það sem skiptir máli er að vera meðvituð um ákvörðunina. Hvenær ertu að taka ákvörðun út frá fjárhagslegum hagsmunum og hvenær ertu að láta tilfinningar ráða,“ sagði hann. „Ég er ekki að draga úr fólki sem vill kaupa lottómiða en hins vegar væri ágætt ef fólk myndi átta sig á hvers vegna það er að gera það.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir