Einstök í stað Bud Lite í Disney

Einstök hefur tekið sæti hins bandaríska Budweiser.
Einstök hefur tekið sæti hins bandaríska Budweiser. Samsett mynd

„Einstök er pínulítið vörumerki en náði að henda út stærsta bjórframleiðanda í heimi. Það er svolítill víkingur í því,“ segir Hreiðar Þór Jónsson, markaðsstjóri hjá Vífilfelli, en Einstök White Ale bjórinn er búinn að hirða stað Bud Lite í Epcot Disney garðinum í Flórída.

Einstök hefur verið til sölu í Disney í rúmt ár og var Einstök Doppelbock jólabjórinn á síðasta ári eini hátíðarbjór garðsins. Á dögunum var hins vegar Bud Lite á dælu skipt úr fyrir Einstök White Ale í Norðurlandahluta Epcot garðsins. Hreiðar segir að vel sé tekið í íslenska bjórinn og að salan hafi gengið ljómandi vel.

Seldi sig sjálfur

Aðspurður hvernig bjórinn hafi lent í Disney segir Hreiðar að boltinn hafi að nokkru leyti rúllað sjálfur af stað. „Sagan á bak við vöruna hentaði vel í þetta víkingaþema sem fylgir þessum hluta garðsins. Það er mynd af víkingi á umbúðunum og það kveikti áhugann fyrst en þegar menn fóru að kynna sér hreina vatnið og hvað Einstök stendur fyrir varð þetta að veruleika,“ segir hann. 

„Við erum að keppa við fjögur þúsund bjórframleiðendur í Bandaríkjunum og Einstök er ein af þessum pínulitlu. Þetta er því alveg ótrúlegt,“ segir Hreiðar hreykinn af því að hafa bolað hinum erkibandaríska Bud LLite af dælunni.

Einstakur vöxtur

Gengi Einstakrar hefur verið gott víðar en í Disney en bjórinn er einnig kominn í sölu Texas, mesta bjórdrykkjufylki Bandaríkjanna og New York. Hreiðar segir stefnuna vera að bæta við fleiri fylkjum en bendir þó á að framleiðslan þurfi að standa undir eftirspurninni. „Þetta verður að gerast skref fyrir skref og það er ekki hægt að gleypa allan heiminn í einum bita. Við þurfum að fylgja þessu vel eftir,“ segir hann. 

Einstök bjórinn hefur verið bruggaður frá árinu 2011 og er framleiddur á Akureyri þaðan sem 70% framleiðslunnar er flutt til Bandaríkjanna. Hreiðar segir vöxtinn hafa verið gífurlegan og framleiðsluna hafa tvöfaldast á hverju ári en Einstök er nú orðinn stærsta útflutta áfengisvara Íslands og tók sæti Reyka vodkans á síðasta ári.

Einstök er á dælu í Disney.
Einstök er á dælu í Disney. Mynd/Micky News
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK