Bankatoppar fengu rúman milljarð

Bankastjórarnir fjögurra stærstu bankanna fengu samanlagt rúmar 164 milljónir króna ...
Bankastjórarnir fjögurra stærstu bankanna fengu samanlagt rúmar 164 milljónir króna í árslaun á árinu 2014. mbl.is/Golli

Bankastjórar, framkvæmdastjórar og stjórnarmenn í fjórum stærstu bönkum landsins fengu samanlagt um 1,2 milljarða króna í laun á árinu 2014. Bankastjórarnir fjórir fengu samanlagt rúmar 164 milljónir króna í árslaun.

Ársreikningar flestra skráðra félaga hafa nú verið birtir en þar má finna upplýsingar um launakjör helstu stjórnenda fyrirtækjanna. Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, er launahæstur bankastjóranna fjögurra, en í ársskýrslu Arion kemur fram að hann hafi fengið 52,2 milljónir króna í launagreiðslur á síðasta ári auk 6,3 milljóna í árangurstengdar greiðslur. Það gerir alls 58,5 milljónir króna eða tæplega 4,9 milljónir króna á mánuði.

Níu framkvæmdastjórar hjá bankanum fengu þá samtals 227,5 milljónir króna á árinu, auk 24 milljóna í bónusgreiðslur sem jafngildir um 2,3 milljónum króna í mánaðarlaun að meðaltali.

Steinþór með lægstu launin

Launagreiðslur til Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbanka Íslands, námu 18,5 milljónum á árinu, auk 2,1 milljóna króna í hlutabréfatengdar greiðslur. Það gerir alls 20,6 milljónir króna á árinu eða um 1,7 milljónir króna á mánuði.

Athygli vekur að sjö framkvæmdastjórar Landsbankans, eru launahærri en bankastjórinn, en þeir fengu samanlagt 193,5 milljónir á árinu, auk 19,4 milljóna í hlutabréfatengdar greiðslur. Það gerir alls 212,9 milljónir króna, sem jafngildir 2,5 milljónum króna á mánuði.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, fékk 38,5 milljónir króna í laun á árinu auk 4,8 milljóna í árangurstengdar greiðslur. Samtals eru það 43,4 milljónir króna á árinu eða 3,6 milljónir króna á mánuði. Það jafngildir um 36,1 milljón í árslaun að meðaltali eða rúmum þremur milljónum króna.

Átta framkvæmdastjórar bankans voru þá með 198,7 milljónir króna í árslaun auk 22,4 milljóna bónusgreiðslna, sem jafngildir um 2,3 milljónum króna að meðaltali í mánaðarlaun.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka fékk þá 42,1 milljón króna í laun á árinu, eða um 3,5 milljónir króna á mánuði. Fjórir lykilstjórnendur voru með 134,8 milljónir í laun, eða um 2,8 milljónir á mánuði.

Mótframlag bankanna í lífeyrissjóði er ekki tekið með í útreikninginn þar sem greiðslan var ekki sundurliðuð í öllum árreikningum.

Forstjóri TM launahæstur hjá tryggingafélögum

Laun forstjóra þriggja stærstu tryggingafélaganna eru á pari við bankastjóralaunin. Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, er þar launahæstur en launin hans námu 43,7 milljónum króna á árinu 2014 auk tæplega fjögurra milljóna króna mótframlags í lífeyrissjóð. Það jafngildir tæpum fjórum milljónum króna á mánuði og hafa launin hækkað um 200 þúsund krónur frá fyrra ári.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, fékk þá 36,3 milljónir króna á árinu auk 4,9 milljóna mótframlags í lífeyrissjóðs, eða alls 41,2 milljónir sem jafngildir rúmum 3,4 milljónum króna á mánuði. Laun hennar hafa lækkað lítillega frá fyrra ári er þau námu rúmum 3,5 milljónum króna á mánuði.

Launagreiðslur til Hermanns Björnssonar, forstjóra Sjóvá, námu um 39,3 milljónum króna auk 5,4 milljóna í mótframlag í lífeyrissjóð, eða alls 44,7 milljónum króna. Það jafngildir rúmum 3,7 milljónum króna og hafa launin hækkað um 200 þúsund frá fyrra ári.

Gylfi með 5,8 milljónir á mánuði

Þegar litið er til fyrirtækja í flutningageiranum sker Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, sig úr hópnum en hann var með 362 þúsund evrur í árslaun, sem jafngildir um 53,8 milljónum króna. Þá fékk hann einnig 108 þúsund evrur í ýmsar greiðslur, s.s. bónusa, ferðapeninga, mótframlag í lífeyrissjóð og bifreiðahlunnindi, en það jafngildi um 16 milljónum króna. Samtals var hann því með 5,8 milljónir króna á mánuði.

Laun Björgólfs Jóhanssonar, forstjóra Icelandair Group, eru nokkuð lægri, en launin hans námu 45,8 milljónum króna á árinu eða 3,8 milljónum króna á mánuði. Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála hjá félaginu, var þá með um 3,3 milljónir á mánuði og Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair var einnig með 3,3 milljónir króna í mánaðarlaun. Sjö aðrir lykilstjórnendur hjá félaginu voru þá samanlagt með 192,5 milljónir króna í laun á árinu sem jafngildir um 2,3 milljónum króna að meðaltali í mánaðarlaun.

Launahæstur allra

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar er launahæstur allra forstjóranna í Kauphallarfélögum. Hann var með rúmar 1,7 milljónir Bandaríkjadala í laun á síðasta ári eða alls um 236 milljónir króna. Það jafngildir um 19,5 milljónum króna á mánuði. Þá voru sex lykilstjórnendur hjá fyrirtækinu samtals með um 2,7 milljónir Bandaríkjadala í laun, eða um 377,6 milljónir króna. Það jafngildir um 62,9 milljónum á ári að meðaltali eða um 5,2 milljónum króna.

Hlutabréfaeignir forstjóranna voru ekki teknar með í launatölurnar en allir eiga þeir hlut í félögunum og fá einnig arðgreiðslur samkvæmt því.

Steinþór Pálsson
Steinþór Pálsson Ernir Eyjólfsson
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips. mbl.is/Ómar Óskarsson
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir