Evrusvæðið ósjálfbært án eins ríkis

AFP

Evrusvæðið er ósjálfbært við núverandi aðstæður og getur ekki lifað af nema evruríkin séu reiðubúin að gefa eftir fullveldi sitt og mynda Bandaríki Evrópu. Þetta er mat framkvæmdastjóra PIMCO, stærsta fjárfestingasjóðs heimsins. Fjallað er um málið á fréttavef Daily Telegraph.

Framkvæmdastjórar PIMCO, Andrew Bosomworth og Mike Amey, segja að þó evrusvæðið eigi líklega ekki eftir að liðast í sundur til skamms tíma litið gæti evran ekki lifað af nema aukinn samruni ætti sér stað á milli evruríkjanna. Þeir segja að sagan sýni að ekki sé hægt að byggja á núverandi fyrirkomulagi til framtíðar. „Sagan geymir engin dæmi þess að slíkt fyrirkomulag, miðstýrð peningamálastefna en valdadreifð efnahagsstefna, geti virkað áratugum saman.“

Þeir vísa einnig til uppgangs populískra stjórnmálaflokka innan Evrópusambandsins og vaxandi óánægju með evruna sem viðvarandi lágur hagvöxtur ýtti undir. Staðan sé grafalvarleg og koma verði til móts við áhyggjur fólks með pólitískum aðgerðum. Svara verði þeirri spurningu hvert endanlegt markmið sé með evrunni. Sagan sýni að myndbandalög fullvalda ríkja séu ekki möguleg. Semja verði um hvernig deila eigi niður fjármunum innan evrusvæðisins.

„Verður niðurstaðan Bandaríki Evrópu? Það er ekki útilokað, en Evrópusambandið gæti líka varið áratugum í einhvers konar útgáfu af pólitísku og fjárhagslegu sambandsríki. Þó það sé kannski ekki ein ríkisstjórn, eitt vegabréf og einn her þá gætum við verið að færast nær því markmiði - en ekki alveg strax.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK