Gefur frí og lokar útibúum

Starfsmenn Íslandsbanka fá frí eftir hádegi þann 19. júní.
Starfsmenn Íslandsbanka fá frí eftir hádegi þann 19. júní. mbl.is/Ómar Óskarsson

Starfsmönnum Íslandsbanka verður veitt frí eftir hádegi þann 19. júní til að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Ríkisstjórn Íslands hvetur vinnuveitendur, jafnt á almennum vinnumarkaði sem og hjá ríki og sveitarfélögum, til að gera starfsmönnum sínum kleift að taka þátt í skipulögðum hátíðarhöldum þennan dag. Útibú bankans verða því lokuð eftir hádegi 19. júní en nauðsynlegri bankaþjónustu verður þó viðhaldið, segir í frétt frá Íslandsbanka.

Hjá Íslandsbanka starfa um 950 manns. Í fréttatilkynningu kemur fram að bankinn hefur starfað eftir jafnréttisáætlun sem er leiðarvísir í jafnréttismálum kynjanna innan bankans. Áhersla er lögð á jafnan rétt kynjanna í ráðningarstefnu bankans sem og jafnan rétt til starfsþróunar. Í dag eru konur í 52% af stjórnendastöðum í bankanum. Þá uppfyllir bankinn einnig kröfur um jöfn hlutföll kynja í stjórn bankans en í henni sitja 4 konur og 3 karlmenn.

Íslandsbanki er einn styrktaraðila ráðstefnunnar We Inspirally sem verður haldin hér á landi í kringum kosningaafmælið. Á ráðstefnunni verður fjallað um kynjamisrétti og hvaða leiðir eru færar til að leiðrétta það. Þetta er alþjóðleg ráðstefna þar sem boðið verður upp á fjölda fyrirlestra frá sérfræðingum víðs vegar að úr heiminum.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að jafnréttismál séu málefni beggja kynja og komi okkur því öllum við. „Það er ekki bara spurning um mannréttindi að bæði kynin hafi jöfn tækifæri til athafna heldur er jafnrétti einnig mikilvægt í efnahagslegu tilliti.  Þann 19. júní munum við fagna þeim góða árangri sem náðst hefur í þessum málum og hvetjum við starfsmenn bankans að taka þátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK