Má bjóða þér hland í hárið?

Hópurinn þróaði sjampóið á nýsköpunarnámskeiði í HR.
Hópurinn þróaði sjampóið á nýsköpunarnámskeiði í HR.

„Ég held að fólk muni skiptast í tvo hópa; sumum mun finnast þetta spennandi og verða tilbúnir til þess að prófa og sjá árangurinn. Hinum mun finnast það fráhrindandi að fá hland í hárið,“ segir Anton Reynir Hafdísarson, sem hefur þróað sjampó úr kúahlandi. „En ég held að árangurinn muni tala sínu máli,“ bætir hann við.

Hugmyndin varð til hjá hópi í nýsköpunaráfanga í Háskólanum í Reykjavík en ásamt Antoni eru þau Brynhildur María Gestsdóttir, Íris Dröfn Magnúsdóttir, Alfreð Andri Alfreðsson, Björg Maríum Adamsdóttir og Helga Guðný Elíasdóttirí hópnum.

Anton segir að hópurinn hafi viljað taka eitthvað verðmæti sem ekki er nýtt í dag og nýta það til þess að skapa eitthvað annað. „Við lögðumst í smá rannsóknarvinnu og komumst að því að í gamla daga var kúahland notað til þess að þrífa hárið, líkamann, föt og annað,“ segir Anton.

Hreint hár á meyjum landsins

Líkt og segir á Vísindavefnum er orðið keyta notað yfir staðið hland. Hlandið leysir greiðlega upp sýrur, þar á meðal óhreinindi á hlutum sem settir eru í hana og er þvottavirknin svipuð og virkni venjulegrar sápu. „Einnig segir sagan að meyjar þessa lands hafi fyrr á öldum blandað keytu í þvottavatnið ef þær vildu fá hár sitt hreint og fallegt,“ segir þar.

Eftir að áttað sig á þessu setti hópurinn sig í samband við kunnáttufólk í sápugerð og var sjampóið „Q“ þróað í kjölfarið. „Við erum búin að hanna sápuna og nú situr hún í kæli og bíður þess að verða alveg tilbúin eftir einn til tvo daga.“

Aðspurður segist Anton vera búinn að prófa sjampóið. „Það virkar mjög vel,“ segir hann og bætir við að hlandið sé afar hreinsandi og vítamínríkt. Þá eru einnig önnur lífræn efni í blöndunni, líkt og kókos- og sólblómaolía.

Anton þvertekur fyrir að hlandlykt sé að sjampóinu. „Okkur hefur alveg tekist að koma í veg fyrir það og það er mjög góð lykt af vörunni en ilmurinn sem við notum nefnist Bergamot.“ Hann telur hlandlyktina hafa verið helstu ástæðu þess að fólk skipti hlandinu út fyrir hefðbundna sápu á sínum tíma og bendir á að það sé ekki lengur til fyrirstöðu.

Út fyrir landsteinana

Stefnt er að því að koma sjampóinu í sölu í verslunum með lífrænar vörur og segir Anton að hópurinn sé nú þegar farinn að setja sig í samband við búðir. „Þetta er 100% lífrænt, það eru engin gerviefni og enginn spillandi úrgangur sem fylgir,“ segir hann og bætir við að vonir standi til þess að hægt verði að fara með sjampóið erlendis. 

Hlandið kemur frá bóndabæ fyrir austan sem nefnist Dufþaksholt. Anton segir einn úr hópnum hafa verið með tengingu þar á bæ. „Við hringdum bara og spurðum hvort við mættum safna smá hlandi. Bóndanum fannst það minnsta málið og sagði okkur sögur af því að systur hans og gamlir ættingjar hefðu gert þetta.“ 

„Við vorum bara með fötu og gripum það,“ segir Anton aðspurður hvernig þeir hafi safnað hlandinu. „Það var voða einfalt en við þurfum að gera þetta á skipulegan máta ef sjampóið verður vinsælt.“

Þvagið er afar hreinsandi.
Þvagið er afar hreinsandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Q Shampoo
Q Shampoo
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK