Betur borgið utan evrusvæðisins

Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands.
Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands. AFP

Fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis, harmar þann dag þegar Grikkir gerðust aðilar að evrusvæðinu. Hann er þeirrar skoðunar að hagsmunum landsins væri betur borgið ef það hefði haldið í sjálfstæðan gjaldmiðil sinn. 

Þetta kemur fram í umfjöllun Larry Elliott, viðskiptaritstjóra breska dagblaðsins Guardian, á fréttavef blaðsins í dag. Ráðherrann segi ennfremur að innst inni vildu forystumenn evruríkjanna óska þess að hugmyndin um evruna hefði verið kæfð í fæðingu en þeir gerðu sér hins vegar grein fyrir því að þegar ríki hefur einu sinni tekið upp gjaldmiðilinn sé ekki aftur snúið án þess að það hafi hrikalegar afleiðingar.

Elliott segir að þetta sé allt hárrétt hjá gríska fjármálaráðherranum. Hann segir að það sé ljóst að Grikkland hafi gert mistök með því að gerast aðili að evrusvæðinu á sínum tíma. Elliott segir að það sé að sama skapi ljóst að Grikkir væru betur settir með sjálfstæðan gjaldmiðil í ljósi þess að gríska hagkerfið hafi dregist saman um 25%. Ef Grikkir segðu skilið við evruna fylgdu því efnahagslegir erfiðleikar eins og fjármagnshöft, minna traust á grísku efnahagslífi og að skipta evrum út fyrir hinn nýja gjaldmiðil.

Verra að vera áfram á evrusvæðinu?

Spurningin sé hins vegar sú hvort efnahagslegir erfiðleikar Grikkja yrðu verri við það að yfirgefa evrusvæðið. Bendir Elliott á að Grikkland glími þegar við gríðarlega efnahagslega erfiðleika með evruna sem gjaldmiðil og hafi gert það frá árinu 2010. Hann segir að Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, standi frammi fyrir tveimur kostum. Annars vegar að framfylgja stefnu sinni um að hafna frekari aðhaldsaðgerðum í Grikklandi sem samrýmist ekki áframhaldandi veru á evrusvæðinu eða gefast upp fyrir kröfum lánardrottna landsins.

Elliott veltir því fyrir sér hvort erfiðleikar Grikkja myndu ganga hraðar yfir ef þeir væru með sjálfstæðan gjaldmiðil og vitnar til skrifa bresku hagfræðinganna Roger Bootle og Jessica Hinds hjá hugveitunni Capital Economics í þeim efnum. Þau vísi til reynslu Íslands. Íslendingar hafi vissulega þurft að glíma við erfiðleika; fjármagnshöft, mikla gengislækkun og samdrátt í hagkerfinu. Hins vegar hafi Ísland náð sér á strik aftur og viðvarandi hagvöxtur verið hér á landi frá árinu 2011. Gengisfall krónunnar hafi leikið lykilhlutverk í því sambandi.

Lífstíðardómur án möguleika á náðun

Elliott bendir á að ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi hafi blómstrað í kjölfarið sem og útflutningsgreinarnar og að mati þeirra Bootle og Hinds myndi það sama gerast hjá Grikkjum ef þeir segðu skilið við evrusvæðið. Fjármagnshöft myndu skaða hagkerfið líkt og raunin hafi verið á Íslandi, en þeirra gæti orðið þörf jafnvel þó að Grikkland yrði áfram á evrusvæðinu. Lægra gengi nýs gjaldmiðils yrði langt því frá einhver töfralausn. En eftir fimm ár af miklum erfiðleikum liti áframhaldandi evruaðild út eins og lífstíðardómur án möguleika á náðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK