Merkilegasta framlag Íslendinga á öldinni

Bláa lónið er dæmi um fyrirtæki sem byggst hefur byggst ...
Bláa lónið er dæmi um fyrirtæki sem byggst hefur byggst upp með farsælum hætti í auðlindagarðinum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er upphafið af merkilegri vegferð en nokkurt okkar getur gert sér grein fyrir,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á ráðstefnu um Auðlindagarðinn í Hörpu í morgun. „Við þurfum að vera nægilega víðsýn til þess að gera þetta ekki aðeins að verkefni okkar Íslendinga, heldur allrar heimsbyggðarinnar,“ sagði Ólafur.

„Auðlindagarðurinn verður eitt það merkilegasta sem Íslendingar munu leggja til heimsbyggðarinnar á þessari öld,“ sagði hann. Ólafur sagði að garðurinn ætti að vera líkt og Bláa lónið í held sinni og geta tekið á móti einni milljón ferðamanna. „Heimsbyggðin hefur áhuga á því að sjá ekki bara Þingvelli og Geysi, heldur einnig veruleika hinnar hreinu orku.“

Affal eins er verðmæti annars

Í garðinum er að finna þyrpingu fyrirtækja sem byggja framleiðslu sína á samnýtingu auðlindar, þ.e. jarðvarma frá HS Orku. HS Orka, HS Veitur og Bláa lónið mynda hryggjarstykkið í tekjuöflun garðsins en önnur fyrirtæki eru Haustak, Háteigur, Northern Light Inn, ORF Líftækni, Carbon Recycling International og Stolt Sea Farm Iceland.

Hugsunin er að affall eins fyrirtækis sé verðmæti annars. Markmiðið er að byggja um þéttara samfélag fyrirtækja sem starfa án úrgangs og sóunar og geta verið fyrirmynd annarra. 

„Auðlindagarðurinn er liður í sjálfbærri nýtingu jarðhitaauðlinda. Okkur í HS Orku ber að nýta þann kost og sóa engu. Það er stefna okkar að byggja hann upp samfara nýtingu á öðrum svæðum, sagði Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri Auðlindagarðsins á fundinum. „Virkjunin leggur grunninn fyrir fjölþætta nýsköpun.“ 

Breytingar að verða á starfseminni

Í nýrri skýrslu sem Gamma tók saman um garðinn segir að margt bendi til þess að eðlisbreyting sé nú að verða á starfsemi garðsins og viðfangsefnum fyrirtækjanna sem þar starfa. Vægi rannsókna og þróunar hefur aukist auk þess sem umsvif hafa aukist í ýmiss konar þjónustustarfsemi tengdri ferðaþjónustu.

Um 500 manns starfa nú í Auðlindagarðinum og um 600 afleidd störf má rekja til hans. Tekjur garðsins námu um 20,5 milljörðum króna árið 2013 eða um 1% af vergri landsframleiðslu. Til samanburðar nam framlag fiskveiða um 5,5% af landsframleiðslu og álframleiðslu um 2,3% árið 2013.

Í skýrslu Gamma segir að ætla megi að atvinnuleysi á Suðurnesjum hefði verið um tveimur prósentustigum hærra ef garðsins hefði ekki notið við. Eitt af hverjum fjórum nýjum störfum sem verða til á Suðurnesjunum má rekja til Auðlindagarðsins.

Fyrirhuguð fjárfesting á næstu 2 til 5 árum nemur 20 til 25 milljörðum króna.

Fjöldi ónýttra tækifæra

„Ljóst er að vaxtarmöguleikar garðsins eru miklir. Nú þegar liggja fyrir áætlanir um frekari framkvæmdir og fjárfestingar á vegum fyrirtækjanna. Fjölgun fyrirtækjanna er jafframt fyrirsjáanleg,“ segir í skýrslu Gamma.

Í skýrslunni er t.d. bent á að að jarðhitavökvi sé ríkur af steinefnum og málmum. Ýmsir verðmætir málmar, s.s. gull og silfur, mælast í vinnanlegu magni í vökvanum en enn skortir þekkingu til að einangra þá. „Það er vettvangur fyrir nýsköpun og þróun,“ sagði Kristín Vala. 

Þá er bent á ónýtt tækifæri felist í jarðhitagasinu, sem ríkt er af kolsýru en í dag er innlend eftirspurn eftir kolsýru meiri en innlend framleiðsla annar. Þá má nýta varmann úr affalsvökvanum til margs konar eldi lífvera, til varma- og frostþurrkunar og til afþreyingar eða heilsubóta, líkt og Bláa lónið hefur gert með miklum árangri.

„Þó að frá jarðvarmaverum komi einungis ákveðinn fjöldi auðlindastrauma, sem hver um sig hefur hámarks afkastagetu, á auðlindahugsunin sem slík sér engin takmörk,“ segir í skýrslu GAMMA.

Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, segir að Auðlindagarðurinn sé ...
Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, segir að Auðlindagarðurinn sé eitt það merkilegasta sem Ísland muni leggja af mörkum til alþjóðasamfélagsins. Rósa Braga
mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK