Starfsemi CCP í Vatnsmýrina

Nýjar höfuðstöðvar CCP munu rísa þar sem bláleiti reiturinn er.
Nýjar höfuðstöðvar CCP munu rísa þar sem bláleiti reiturinn er.

Leikjaframleiðandinn CCP hyggst flytja starfsemi sína á Íslandi í nýtt húsnæði að Sturlugötu í Vatnsmýrinni. Lóðin liggur samsíða húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar og verður byggingin alls um 14.000 fermetrar. Framkvæmdir gætu hafist í kringum áramótin. 

Ástæðan fyrir því að framkvæmdir hefjast ekki strax er sú að leyfi þarf frá borginni til þess að sameina tvær lóðir áður en hægt er að hefjast handa. Hins vegar er talið að byggingin geti risið hratt þegar framkvæmdir eru hafnar og alls tekið um tvö til tvö og hálft ár.

Í húsnæðinu verður þá einnig að finna aðstöðu fyrir fleiri nýsköpunarfyrirtæki þrátt fyrir að CCP verði burðarstarfsemin í húsnæðinu. CCP mun undirrita samning um flutning starfseminnar klukkan 14 í dag.

Að sögn Eiríks Hilmarssonar, framkvæmdastjóra Vísindagarða Háskóla Íslands, má reikna með að byggingarkostnaðurinn á hvern fermetra verði á bilinu 400 til 500 þúsund krónur. Samkvæmt því verður heildarkostnaðurinn um 5,6 til 7 milljarðar króna. Í þeirri tölu er þó ekki innifalinn kostnaður við bílakjallara sem grafinn verður undir húsinu.

Margt breyst frá upphafsárunum

„Það hefur margt breyst frá upphafsárum fyrirtækisins þegar starfsemin rúmaðist í lítilli kjallaraskrifstofu við Klapparstíg. Síðustu tíu ár höfum við verið með meginstarfsemi okkar á Grandasvæðinu, þar sem hefur farið vel  um okkur innan um margskonar nýja starfsemi sem þar hefur sprottið upp á síðustu árum,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP. 

„CCP hefur góða reynslu af samstarfi við önnur þekkingarfyrirtæki, sem og háskólasamfélagið hérlendis, og við erum spennt að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er í Vatnsmýrinni. CCP varð til í Reykjavík og saga okkar í borginni spannar hátt í annan áratug.“

Framtíðarstaður í borginni

Hilmar segir að tími hafi verið kominn á nýja staðsetningu fyrir starfsemina hérlendis samhliða framtíðaráformum fyrirtækisins. „Starfsfólk okkar kemur allstaðar að úr heiminum til að starfa fyrir CCP, og ég er ánægður með að við höfum getað fundið starfsemi okkar á Íslandi framtíðarstað í borginni í þessu nábýli við háskólasamfélagð, fyrirtæki og frumkvöðla - og þau spennandi framtíðaráform sem fyrirhuguð eru í Vatnsmýrinni. Það er held ég ekki hægt að eignast betri nágranna,“ segir Hilmar.

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP framleiðir og gefur út fjölspilunar-tölvuleikina EVE Online og DUST 514, auk þess að vera með leikinn EVE: Valkyrie í þróun. Fyrirtækið var stofnað í Reykjavík árið 1997 og hjá því starfa rúmlega 330 manns á skrifstofum þess í Reykjavík, Shanghai, Atlanta og Newcastle.

Hagræðingaraðgerðir yfirstaðnar

Líkt og fram hefur komið jókst tap CCP um tæpa sex millj­arða milli ára og nam alls rúm­um 8,7 millj­örðum ís­lenskra króna á síðasta ári. Tekj­ur dróg­ust sam­an, skuld­ir juk­ust og starfs­mönn­um var fækkað. 

CCP hefur bent á að tapið megi rekja til af­skrifta og niður­færslu óefn­is­legra eigna og hafði sú ákvörðun að hætta þróun tölvu­leiks­ins World of Dark­ness veru­leg áhrif á út­komu árs­ins 2014 og bók­færðan kostnað þess. Sam­kvæmt árs­reikn­ingi fyr­ir­tæk­is­ins námu óefn­is­leg­ar eign­ir, sem er að mestu leyti eign­færður þró­un­ar­kostnaður, um 1,9 millj­arði króna í lok síðasta árs sam­an­borið við 9,6 millj­arða árið 2013

Gripið var til töluverða hagræðingar á síðasta ári þar sem stöðugild­um var m.a. fækkað úr 537 í 431. Líkt og áður hef­ur verið greint frá voru 27 starfs­menn í höfuðstöðvun­um í Reykja­vík látn­ir fara en í sam­tali við mbl í mars sagði Eld­ar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, að ekki væri von á frek­ari upp­sögn­um. 

Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP
Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP
Merki EVE-fanfest 2015.
Merki EVE-fanfest 2015. CCP
mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Heimir Lárusson Fjeldsted: Stolt
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK