Fjölmiðlar fagna nýjum leik CCP

Nýi EVE: Valkyrie leikurinn fær rífandi góða dóma.
Nýi EVE: Valkyrie leikurinn fær rífandi góða dóma. KristinnIngvarsson

Sýnishornið úr nýja leiknum er einfaldlega töfrandi,“ skrifar kauphallarfyrirtækið Nasdaq um nýjan leik íslenska leikjaframleiðandans CCP - EVE Valkyrie. 

Líkt og fram hefur komið var leikurinn kynnt­ur á aðal­kynn­ingu SONY á einni stærstu leikjaráðstefnu heims, E3, á dögunum. Val­kyrie er sýndarveruleikaleikur eða svokallaður VR leik­ur. Hann er vænt­an­leg­ur á markað á fyrsta árs­fjórðungi næsta árs.

Nasdaq minnist á Valkyrie leikinn samhliða umfjöllun um Oculus Rift sýndarveruleika-gleraugun sem einnig voru formlega frumsýnd á ráðstefnunni. Oculus Rift er í eigu Facebook sem keypti fyrirtækið á síðasta ári fyrir tvo milljarða dollara.

„Við erum auðvitað mjög ánægð með þau góðu viðbrögð sem við fengum hjá blaðamönnum og starfsmönnum iðnaðarins á E3. Þetta er kröfuharður hópur og samkeppnin mikil. Blaðamenn eru óragir við að benda á galla og spá heilu leikjunum glötun,“ segir Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP.

„Þetta gefur okkur því ákveðin merki um að það sé spenna og eftirvænting eftir leiknum, sem við höfum við líka fundið annarstaðar. En við erum með fæturnar á jörðinni, einbeitum okkur að því að leikurinn skili notendum hans sem bestri upplifun og höldum áfram að undirbúa útgáfu hans. Það er að mörgu að huga í þeim efnum,“ segir hann.

Biðin loks á enda

CCP hefur beðið eftir útgáfudeginum um nokkurn tíma þar sem leikurinn hefur verið svo gott sem tilbúinn en gleraugun eru hins vegar nauðsynleg til þess að spila hann. Fyrirtækið hefur þó getað nýtt sér tímann til þess að þróa leikinn enn frekar og betrumbæta. 

Á ráðstefnunni var þó hvorki gefinn upp nákvæmur útgáfudagur né verð á búnaðinum. Hins vegar er ljóst að það verður á fyrsta ársfjórðungi 2016 og samkvæmt heimildum Wired verða gleraugun og PC tölva sem ræður við búnaðinn saman á um 1.500 dollara, eða tæplega 200 þúsund krónur. 

Raunverulegasti leikurinn til þessa

Nasdaq er ekki eini fjölmiðillinn ytra sem vart heldur vatni yfir leiknum. Í umfjöllun Wall Street Journal segir að hraðinn og átökin í leiknum séu mikil og hönnunin er sögð straumlínulögð, nákvæm og eins góð og það sem sjá má í Playstation eða Xbox leikjum sem gríðarlegum fjármunum hefur verið varið í. Þá minnist gagnrýnandi á að honum hafi ekki svimað eftir að hafa tekið þátt í raunverulegum geimbardaga í korter.

USA Today segir útsýnið í leiknum gera þig orðlausan og gagnrýnandi Extreme Tech segir Valkyrie vera raunverulegasta leik sem hann hefur nokkru sinni spilað.

„Ef það er einhver leikur sem mun móta tímabil sýndarveruleika í tölvuleikjum er það EVE Valkyrie,“ segir þá blaðamaður Shacknews.

Mikið hefur verið um að vera hjá CCP á síðustu misserum en auk þess sem nýi leikurinn hefur vakið athygli tilkynnti fyrirtækið á dögunum fyrirhugaða flutninga starfstöðva þess á Íslandi í Vatnsmýrina.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/DZ4gpjwJa08" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>

 

Skjáskot úr EVE Valkyrie.
Skjáskot úr EVE Valkyrie. Mynd/CCP
Oculus Rift þykir bjóða upp á mjög fulkomna sýndarveruleikaupplifun.
Oculus Rift þykir bjóða upp á mjög fulkomna sýndarveruleikaupplifun.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK