Höfuðstöðvarnar verða þær stærstu

Teikningin sýnir staðsetningu nýrra höfuðstöðva Landsbankans, byggingarmagn, afstöðu og hæðartakmarkanir …
Teikningin sýnir staðsetningu nýrra höfuðstöðva Landsbankans, byggingarmagn, afstöðu og hæðartakmarkanir en ekki hvernig nýbyggingin mun líta út. Mynd/Landsbankinn

Gert er ráð fyrir að nýjar höfuðstöðvar Landsbankans við Austurhöfn við Reykjavíkurhöfn verði 16.500 fermetrar að stærð. Þar með yrðu höfuðstöðvar bankans þær stærstu af höfuðstöðvum stóru viðskiptabankanna þriggja. Bankinn hyggst þó aðeins nýta 14.000 fermetra til að byrja með.

Þá áformar Íslandsbanki að byggja um sjö þúsund fermetra viðbyggingu við núverandi höfuðstöðvar sínar á Kirkjusandi. Það myndi þýða að húsnæðið yrði alls um fimmtán þúsund fermetrar.

Höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúninu eru um 8.200 fermetrar að stærð.

Til samanburðar má nefna að Kringlan er 54.000 fermetrar, Harpa 28.000 fermetrar, húsnæði Orkuveitunnar að Bæjarhálsi 16.500 fermetrar og Háskólatorg, í Háskóla Íslands, um 8.500 fermetrar.

Landsbankinn hafði stórhuga áform um að byggja nýjar höfuðstöðvar á árunum fyrir hrun. Árið 2007 ákvað bankinn, sem þá var alþjóðlegt fjármálafyrirtæki, að byggja nýjar höfuðstöðvar fyrir neðan Arnarhól í miðborginni. Stefnt var að því að reisa þær á reit sem afmarkast af Kalkofnsvegi, Geirsgötu, Tollhúsinu og línu frá Tryggvagötu í stefnu á Hverfisgötu.

Samkvæmt þágildandi deiliskipulagi gat byggingin orðið allt að 24 þúsund fermetrar að stærð, en sumar tillögur gerðu þó ráð fyrir að höfuðstöðvarnar yrðu jafnvel yfir 30 þúsund fermetrar.

Blásið var til hönnunarsamkeppni árið eftir og sóttust 47 arkitektateymi frá sautján löndum eftir því að taka þátt. Til stóð að tilkynna úrslitin í keppninni um miðjan októbermánuð 2008 en hrun bankans breytti öllu. Áformin urðu að engu.

58 þúsund á fermetrann

Það var síðan ekki fyrr en í ágústmánuði árið 2013, fimm árum síðar, að forsvarsmenn Landsbankans óskuðu eftir viðræðum við borgina um byggingu nýrra höfuðstöðva í Austurhöfn.

Í maí á síðasta ári gekk bankinn síðan frá kaupum á lóðinni á 957 milljónir króna af Sítusi ehf., dótturfélagi Reykjavíkurborgar og ríkisins. Heildarbyggingarmagn á lóðinni er 16.500 fermetrar samkvæmt deiliskipulag, en miðað við það magn er verð á fermetra 58 þúsund krónur. Tvö fyrirtæki buðu í lóðina, en tilboð Landsbankans var um 15% hærra en hitt.

Í seinustu viku boðaði bankinn síðan byggingu nýrra höfuðstöðva sem verða 14.500 fermetrar auk 2.000 fermetra í kjallara. Áætlanir gera ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður bankans vegna húsnæðis lækki um 700 milljónir króna og að fjárfestingin borgi sig upp á um tíu árum. Aftur verður haldin hönnunarsamkeppni, nú í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Gert er ráð fyrir að allt að 2.500 fermetrar í nýbyggingunni verði nýttir undir aðra starfsemi og verða því 14.000 fermetrar nýttir fyrir bankann sjálfan.

Fram­kvæmd­ir geta haf­ist í lok næsta árs eða byrj­un árs­ins 2017.

Landsbankinn er „miðbæjarfyrirtæki“

Byggingin mun hýsa alla miðlæga starfsemi bankans. Forsvarsmenn bankans hafa bent á með því náist umtalsverð hagræðing en nú fer starfsemi bankans fram í mörgum húsum víða í borginni. Þar af eru fjórtán hús í Kvosinni og eru aðeins fjögur þeirra í eigu bankans. Alls rekur bankinn nú starfsemi á tæplega 29 þúsund fermetrum á öllu höfuðborgarsvæðinu.

Landsbankinn skoðaði að sögn margar lóðir á höfuðborgarsvæðinu. Reyndist lóðin í Austurhöfn besti kosturinn. Bankinn hefur margoft lýst því yfir að hann vilji vera áfram í miðborginni. Hann sé í raun miðbæjarfyrirtæki. Bankinn - og fyrirrennarar hans - hafa verið í miðborginni frá árinu 1885.

Borgaryfirvöld hafa verið sama sinnis. Þegar bankinn óskaði eftir viðræðum við borgina í ágúst 2013 sagði Dagur B. Eggertsson, sem var þá formaður borgarráðs, að það væru hagsmunir miðborgarinnar að Landsbankinn geti verið þar áfram. Haft var eftir upplýsingafulltrúa bankans í Morgunblaðinu fyrr á árinu að ekki kæmu margar lóðir í miðborginni til greina. Það væri í raun aðeins Hörpureiturinn sem hýsti þá stærð af húsi sem Landsbankinn þarf undir sína starfsemi. Eins væru ekki heldur margar lóðir á höfuðborgarsvæðinu sem henta.

Hafnaði ódýrar lóðakostum

Morgunblaðið greindi frá því á laugardaginn að bankinn hefði hafnað ódýrari lóðakostum. Mannverk var eitt þeirra fyrirtækja sem buðu bankanum lóð, á Fiskislóð 33-37 á Granda í 101 Reykjavík, en var hafnað.

Á vef Landsbankans er sagt að Austurhöfn sé hagkvæmasti kosturinn. Eru þar nefnd dæmi um lóðaverð fyrir skrifstofuhúsnæði í höfuðborginni. Fermetraverð í miðborginni er 75.000-100.000 krónur, í Borgartúni/Höfðatúni 60.000-70.000 krónur og 40.000-45.000 krónur við Suðurlandsbraut/Grensás/Skeifu.

Áformin hafa mætt töluverðri andstöðu, til að mynda á meðal stjórnarþingmanna. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, sagði í Morgunblaðinu í dag að áformin væru algjörlega út í hött. „Menn nefna að það sé hagkvæmt að hafa starfsemina á einum stað en á sama tíma kaup þeir dýrustu lóð á Íslandi og hafa hafnað ódýrari lóðum. Hagræðingarrökin eiga því augljóslega ekki við,“ sagði hann.

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hefur tekið í sama streng.

Stórbyggingar úr takt við gamla miðbæinn

Þá hafa margir rifjað upp ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra frá því í ágúst 2013, en þá sagði hann útilokað að ríkisbankinn myndi byggja nýjar höfuðstöðvar á næstunni.

„Ríkið, stofnanir þess og fyrirtæki í opinberri eigu munu þurfa að spara á næstu árum. Nú er verið að endurskoða ýmis útgjaldaáform þannig að það myndi skjóta skökku við ef ríkisfyrirtæki réðist á sama tíma í byggingu dýrra höfuðstöðva,” sagði hann.

Hann nefndi einnig að full ástæða væri til að endurskoða áform sem uppi voru fyrir efnahagshrunið um byggingu stórra skrifstofubygginga milli Hörpu og Kvosarinnar. „Það væri afleitt ef miðbærinn yrði alveg lokaður frá hafinu og útsýninu að Esjunni með stórbyggingum sem væru alveg úr takt við gamla miðbæinn og myndu gnæfa yfir hann. Það ætti frekar að líta til þess hvernig byggðin var áður en hún vék fyrir áformum um stórbyggingar og bílastæðum.“

Glitnir, nú Íslandsbanki, hafði rétt eins og Landsbankinn stórhuga áform um nýjar höfuðstöðvar á árunum fyrir hrun.

Íslandsbanki sameinar starfsemi sína

Hinn 11. apríl 2007 sagði Morgunblaðið frá því að sænska arkitektastofan Arkitekthuset Monarken í Stokkhólmi hefði orðið hlutskörpust í samkeppni um tillögu að nýjum höfuðstöðvum fyrir Glitni og mótun tillagna að nýju deiliskipulagi fyrir lóðirnar Kirkjusand 2 og Borgartún 41.

Samkvæmt tillögunni áttu nýjar höfuðstöðvar Glitnis að vera 14 þúsund fermetrar að stærð. Á lóðinni var einnig gert ráð fyrir mörgum stórum skrifstofubyggingum. Ætla mætti að fjögur þúsund manns myndu fá vinnuaðstöðu á svæðinu. Þessi áform urðu að engu í hruninu.

Nú hyggst bankinn hins vegar sameina starfsemi höfuðstöðva sinna, sem fer fram á fjórum stöðum, á einn stað á Kirkjusandi.

Sameiningin felur í sér stækkun húsnæðisins á Kirkjusandi með viðbyggingu við suðurenda byggingarinnar. 

Fyrirhuguð byggð á Kirkjusandsreitnum var kynnt í lok janúarmánaðar þegar bankastjóri Íslandsbanka og borgarstjóri undirrituðu samning um uppbyggingu, skipulag og skiptingu reitsins.

Bankinn hyggst, samkvæmt því, byggja um 7.000 fermetra viðbyggingu við suðvesturenda núverandi skrifstofuhúsnæðis. Áætlað er að framkvæmdir við viðbyggingu hefjist í lok þessa árs og að þær taki um tvö ár.

Núverandi höfuðstöðvar Íslandsbanka eru tæplega 8.000 fermetrar og yrðu því nýju höfuðstöðvarnar um 15.000 fermetrar.

Til samanburðar eru höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúni 19 um 8.200 fermetrar.

Frétt mbl.is: Nýjar höfuðstöðvar eiga ekki að skyggja á Hörpu

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Kristinn
Kallað verður eftir hugmyndum um nýtingu á gamla bankahúsinu við …
Kallað verður eftir hugmyndum um nýtingu á gamla bankahúsinu við Austurstræti 11. mbl.is/Árni Sæberg
Bankinn hefur verið til húsa í Austurstrætinu síðan 1924, eða …
Bankinn hefur verið til húsa í Austurstrætinu síðan 1924, eða í rúm­lega nítíu ár. mbl.is/Kristinn
Íslandsbanki hyggst sameina starfsemi höfuðstöðva bankans á einn stað á …
Íslandsbanki hyggst sameina starfsemi höfuðstöðva bankans á einn stað á Kirkjusandi. Sameiningin felur í sér stækkun á núverandi húsnæði með viðbyggingu við suðurenda byggingarinnar. mbl.is/Ómar
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK