Stýrivextir hækka í 5,5%

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar Óskarsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 5,5%.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði vexti bankans um 0,5 prósentur þann 10. júní sl. líkt og greiningardeildir höfðu spáð. Þær spáðu því einnig nú að bankinn myndi hækka vexti sína líkt og raun ber vitni.

Samkvæmt nýbirtri spá Seðlabankans verður árlegur hagvöxtur rúmlega 4% í ár og u.þ.b. 3% næstu tvö árin. Á spátímabilinu er vöxturinn um ½ prósentu minni á ári en bankinn spáði í maí sl. Þetta er þó öflugur vöxtur enda fer framleiðsluspenna vaxandi á næstu misserum og hagvöxtur verður í ríkari mæli en á undanförnum árum drifinn af innlendri eftirspurn, ekki síst einkaneyslu. Fjárfesting verður hins vegar veikari en áður var spáð og vinnuaflseftirspurn vex hægar, segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.

Verðbólga hefur aukist undanfarið en er enn undir markmiði Seðlabankans, sérstaklega ef horft er framhjá húsnæðislið verðvísitölunnar. Verðbólguhorfur hafa hins vegar versnað verulega miðað við síðustu spá bankans vegna niðurstöðu nýgerðra kjarasamninga og verðbólguvæntingar hafa hækkað. Spáð er að verðbólga verði komin í 4% snemma á næsta ári og verði á bilinu 4-4½% næstu tvö árin en hjaðni síðan í átt að verðbólgumarkmiðinu, enda felst í spánni að aðhaldsstig peningastefnunnar aukist á næstunni.

Kjarasamningar hafa mikil áhrif á breyttar horfur

Breytingar á efnahagshorfum frá því í maí má fyrst og fremst rekja til áhrifa mikilla launahækkana í kjölfar kjarasamninganna og aukins peningalegs aðhalds sem óhjákvæmilega fylgir þeim. Þær stafa þó einnig af alþjóðlegri þróun sem hefur stuðlað að meiri lækkun innflutningsverðs en áður var gert ráð fyrir og bættum viðskiptakjörum sem vinna á móti verðbólguáhrifum launahækkana. Gengi krónunnar hefur einnig hækkað lítillega þrátt fyrir mikil gjaldeyriskaup Seðlabankans.

„Aukist verðbólga í framhaldi af kjarasamningum eins og spáð er mun peningastefnunefnd þurfa að hækka vexti enn frekar eigi verðbólgumarkmiðið að nást til lengri tíma litið. Hve mikið og hve hratt ræðst af framvindunni og því hvernig greiðist úr þeirri óvissu sem nú er til staðar. Þar má nefna í hve ríkum mæli miklar launahækkanir koma fram í hækkun verðlags annars vegar og aukinni hagræðingu og framleiðniaukningu hins vegar.

Þróun viðskiptakjara, útlána og fasteignaverðs skiptir þar einnig máli. Vaxtaferillinn mun einnig ráðast af því hvort öðrum stjórntækjum verður beitt til þess að halda aftur af eftirspurnarþrýstingi á komandi misserum,“ segir ennfremur í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Vextir Seðlabanka Íslands verða samkvæmt þessu sem hér segir:

Daglán: 7,25%
7 daga veðlán: 6,25%
7 daga bundin innlán: 5,50%
Viðskiptareikningar: 5,25%

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK