Furðu rólegir yfir hruninu í Kína

AFP

Þegar grísk stjórnvöld náðu samkomulagi við lánardrottna landsins um þriðja lánapakkann til handa Grikkjum í júlí, þá voru hagfræðingar sannfærðir um að mesta hættan í heimshagkerfinu í ár væri liðin hjá. Bjartari tímar væru framundan.

Raunin varð önnur. Þess í stað hefur ótti fjárfesta stigmagnast eftir því sem hefur liðið á sumarið og þar sem rót vandans, sem við er að glíma nú, liggur ekki í einu minnsta hagkerfi Evrópu, því gríska, heldur einu því stærsta í heiminum, kínverska hagkerfinu, eru áhyggjurnar meiri en áður.

Það er öllum ljóst að þróun efnahagsmála í Kína hefur mikil og afdrífarík áhrif á heimsbúskapinn. Það er því ekki að ástæðulausu að titringur á hlutabréfamarkaði þar í landi bergmálist um allan heim, eins og við urðum vör við í gær.

Algjör örvænting greip um sig á fjármálamörkuðum og hríðféllu hlutabréfavísitölur um allan heim. Margir hagfræðingar eru þó furðu rólegir. Þó svo að sumir þeirra hafi reyndar þegar lækkað hagvaxtarspá sína fyrir næsta ár, þá er hún enn hærri en fyrir árið í ár.

Antonio Garcia Pacual, hagfræðingur hjá breska bankanum Barclays, gerir til að mynda enn ráð fyrir myndarlegum hagvexti í nýmarkaðsríkjum og þróuðum hagkerfum á þessu ári. Hann spáir því að heimshagvöxtur verði 3,7% á næsta ári, samanborið við 3,2% í ár, að því er fram kemur í umfjöllun Financial Times.

Willem Buiter, aðalhagfræðingur Citigroup, bendir á að heimshagkerfið sé „á viðkvæmum stað“. Hann hefur lækkað hagvaxtarspá sína fyrir næsta ár í Kína, Japan og öðrum nýmarkaðsríkjum í Asíu og Suður-Ameríku. Hann býst þó enn við því að efnahagsaðstæður batni á næsta ári.

Markaðir ekki yfirverðlagðir

Aðrir segja að varla sé hægt að bera hrunið á hlutabréfamörkuðum í gær saman við eldri fjármálakreppur. Hlutabréfamarkaðir séu til dæmis greinilega ekki eins yfirverðlagðir og þeir voru í tæknibólunni um aldamótin og fjármálastofnanir séu ekki á fallandi fæti líkt og í alþjóðakreppunni árið 2008.

David Rees, hagfræðingur hjá Capital Economics, segir að tíðindi gærdagsins svipi frekar til fyrri sumarskjálfta á hlutabréfamörkuðum en til alvarlegra kreppa á nýmörkuðum. Markaðir eigi eftir að taka við sér aftur.

Sumir hagfræðingar eiga erfitt með að skilja viðbrögð fjárfesta í gær. Erik Nielsen, aðalhagfræðingur UniCredit, sakar fjárfesta um að þjást af „ímyndunarveiki“, þar sem þeir fyllist af ótta við öll slæm tíðindi af efnahagsmálum.

Þurfa að reiða sig á önnur ríki

Ein af ástæðunum fyrir því af hverju hagfræðingar eru ekki eins stressaðir og fjárfestar yfir skjálftanum í Kína er vægi landsins í heimsbúskapnum. Þrátt fyrir stærðina, þá líta hagfræðingar ekki á Kína sem leiðandi afl í efnahagslegu tilliti. Andrew Brigden, hagfræðingur hjá Fathom Consulting, segir að þar sem Kínverjar séu stærsti nettóútflytjendur í heiminum, þá verði þeir að reiða sig á önnur ríki, meira en önnur ríki þurfa að reiða sig á þá.

Sérfræðingar hafa aftur á móti tekið eftir því að efnahagstölur í flestum ríkjum heims - að Bretlandi og Kanada undanskildum - eru að jafnaði verri en búist hafði verið við. Hægagangur sé í mörgum hagkerfum heimsins og ekki aðeins bundið við Kína.

Jasper McMahon, sérfræðingur hjá Now-Casting.com, segist til að mynda hafa lækkað hagvaxtarspá sína í Bandaríkjunum fyrir árið um eitt prósentustig frá því í febrúar. Einnig sé mikill órói í Kína og versnandi horfur á evrusvæðinu. „Þó svo að við spáum ekki öðru hruni, þá hefur áhættan greinilega aukist,“ segir hann.

En það eru ekki aðeins hlutabréf sem eru að falla í verði. Hrávöruverð hefur stórlækkað, en sem dæmi endaði olíutunnan á mörkuðum í New York í um 38 dölum í gær. Það er lægsta verð frá árinu 2009. Lækkanir á hrávöruverði auka kaupmátt neytenda, að öðru óbreyttu, og vænta hagfræðingar þess að sú kaupmáttaraukning muni vega á móti hruninu á hlutabréfamörkuðum.

Ekki lausn að lækka vextina

Þá geta seðlabankar einnig hjálpað til, en fjárfestar binda nú vonir sínar við að Seðlabanki Bandaríkjanna bíði með að hækka stýrivexti sína. Ætlunin var að hækka þá í næsta mánuði, en það gæti frestast fram á næsta ár. Einnig er búist við því að ríkisstjórn Xi Jinpings, forseta Kína, bregðist við stöðunni með því að lækka vexti.

Margir fjármálagreinendur benda þó á að það sé engin lausn að lækka bara vextina þegar í harðbakkann slær. Fjárfestar verði einfaldlega að venja sig af stuðningi seðlabanka.

Greinendur hafa bent á að með því að hætta að dæla inn fjármagni í hagkerfi heimsins hækki vextir og fjárfestingar verði ekki lengur knúnar af ódýru fé. Samdráttur í efnahagslífinu sé óumflýjanlegur meðan á þessu standi en hins vegar nauðsynlegur. Leiðrétting þurfi að eiga sér stað: markaðurinn verði að aðlaga sig að breyttum veruleika.

Verðbréfamiðlari fylgist með bréfunum lækka.
Verðbréfamiðlari fylgist með bréfunum lækka. AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK