Björgólfi meinað að fjarlægja stiga

Fríkirkjuvegur 11
Fríkirkjuvegur 11 mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Eftir samþykki forsætisráðherra og Minjastofnunar á breytingum á friðlýsingu Fríkirkjuvegar 11, sem gerði Björgólfi Thor Björgólfssyni kleift að láta fjarlægja aðalstiga hússins, hefur byggingarfulltrúi ákveðið að synja byggingarleyfisumsókn þess efnis. Byggingarfulltrúi var áður formaður Húsafriðunarnefndar og meðlimur Hollvinafélags Hallargarðsins.

Minnisblað byggingarfulltrúans, Nikulásar Úlfars Mássonar, var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í síðustu viku. Þar synjar byggingarfulltrúi því að aðalstigi hússins verði fjarlægður. Hann vísar til neikvæðrar afgreiðslu málsins í 22. maí 2012 og segir engar nýjar upplýsingar hafa komið fram.

Björgólfur Thor keypti Fríkirkjuveg 11 af Reykjavíkurborg árið 2007 fyrir 650 milljónir króna. Í kauptilboði kom fram að tilgangurinn með kaupunum væri að gera húsið aðgengilegt fyrir almenning en líkt og áður hefur komið fram er m.a. ætlunin að koma upp móttökusal, fundarherbergi og eldhúsi í kjallara.

Í apríl 2008 voru stofnuð Hollvinasamtök Hallargarðsins 2008. Einn fyrirlesara á stofnfundinum var Nikulás, sem þá var forstöðumaður Húsafriðunarnefndar

Fundurinn samþykkti að hvetja borgarstjórn Reykjavíkur til að vernda Hallargarðinn í sem upprunalegastri mynd og tryggja að hann yrði óskertur og ætíð opinn almenningi.

Þriggja ára ferli

Haustið 2011 þegar hefja átti framkvæmdir þurfti Björgólfur að leita álits húsafriðunarnefndar á fyrirhuguðum breytingum. Formlegt erindi var sent til nefndarinnar hinn 20. janúar 2012.

Fjórum dögum síðar var málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar en þar var bókað að óskað væri eftir því að Nikulás Úlfar hæfi undirbúning að friðun innra byrðis hússins. Sams konar bókun var samþykkt á fundi nefndarinnar 14. febrúar 2012 og var tillaga um friðun í kjölfarið send til menntamálaráðherra.

Þegar Björgólfur leitaði þangað og fór fram á að öllum erindum vegna málsins yrði beint til lögmanns hans fengust þau svör að ráðherra hefði þegar friðað innra byrði Fríkirkjuvegar 11.

Umboðsmaður Alþingis tók málið í kjölfarið til skoðunar og taldi að víða hefði verið pottur brotinn í málsmeðferðinni. M.a. hefði andmælaréttur Björgólfs verið virtur að vettugi auk þess sem ekki var gætt að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Ráðuneytið tók málið upp að nýju eftir athugasemdir umboðsmanns Alþingis frá janúar 2013 en þá höfðu ný lög um húsafriðun tekið gildi.

Í samræmi við þau var að nýju sótt um leyfi til breytinga til nýstofnaðrar Minjastofnunar Íslands. Niðurstaðan var sú, að Minjastofnun heimilaði ýmsar breytingar á innra byrði hússins og þ.á.m. að fjarlægja fyrrnefndan stiga og varðveita hann. Sú kvöð var jafnframt lögð á að eigandi yrði að koma stiganum fyrir á upprunalegan hátt síðar, ef aðstæður breyttust.

Endanleg niðurstaða fékkst með samþykki forsætisráðherra í maí 2015 og framkvæmdir utanhúss hófust nokkrum dögum síðar.

Málinu ekki lokið

Í júní sl. var Nikulás ráðinn í embætti byggingarfulltrúa í Reykjavík og í ágúst svaraði hann beiðni um leyfi til breytinga með því að óska eftir umsögn Minjastofnunar að nýju. Stofnunin samþykkti þá aftur afturkræfar breytingar innan dyra. 

Líkt og að framan segir er hins vegar í umsögn byggingarfulltrúa vísað til umsagna frá árinu 2012 auk þess sem vísað er til  fundar Húsafriðunarnefndar frá ágúst í fyrra þegar nefndin segist harma það að ekki hafi fundist önnur lausn sem feli í sér minna rask.

Ragnhildur Sverrisdóttir, talskona Björgólfs Thors, segir ljóst að málinu sé ekki lokið og að Björgólfur sé ákveðinn í að gera húsið upp í samræmi við kauptilboðið.

Ekki náðist í Byggingarfulltrúa við vinnslu fréttarinnar.

Athafnamaðurinn Thor Jenssen lét byggja Fríkirkjuveg 11 á árunum 1907 til 1908 en húsið var hannað af Einari Erlendssyni, arkitekt. Thor Jenssen var langafi Björgólfs.

Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum á næsta ári.

Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor Björgólfsson
Stiginn umdeildi. Björgólfur vill láta fjarlægja hann og geyma. Þinglýst …
Stiginn umdeildi. Björgólfur vill láta fjarlægja hann og geyma. Þinglýst kvöð yrði þá á eigninni um að stiganum yrði aftur komið upp á eigin kostnað við sölu eða breytingar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Aðalstofa Fríkirkjuvegar 11 verður opin almenningi að loknum framkvæmdum.
Aðalstofa Fríkirkjuvegar 11 verður opin almenningi að loknum framkvæmdum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK