Allir verða virkir í athugasemdum

Paraðu athugasemdina „Æi, gamli hlauptu á vegg!“ við fullkomlega eðlilega fyrirsögn og útkoman verður undarleg. Spilið #Kommentakerfið verður að líkum tilbúið í sölu í nóvember en það byggir á raunverulegum athugasemdum úr hinum umdeildu íslensku kommentakerfum.

Óli Gneisti Sóleyjarson fékk hugmyndina að spilinu er hann var að spila Card Against Humanity sem margir þekkja. Þar er einn þátttakandi sem stjórnar hverri umferð: Hann heldur á spjaldi með eyðu sem fylla þarf upp í eða spurningu sem þarf að svara. Aðrir þátttakendur eru með nokkrar athugasemdir á hendi og reyna að fylla í eyðuna, eða svara spurningunni, á sniðugan hátt.

Óli fékk þá hugmynd að þýða spilið en sagði það einfaldlega ekki hafa gengið upp á íslensku sökum margra bandarískra tilvísana. Þá kom upp sú hugmynd að byggja annað spil á sama grunni sem víða hefur verið notaður.

Hann leitaði þá djúpt í iðrar íslenska kommentakerfisins þar sem ýmislegt sniðugt var að finna.

800 þúsund safnast

Spilið var fjármagnað með söfnun á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund og hefur markmiðið þegar náðst og rúmlega það. Alls hafa 5.595 evrur, eða sem jafngildir rúmum átta hundruð þúsund íslenskum krónum, safnast. Ennþá eru þó ellefu dagar eftir af söfnuninni og ef meira safnast verður fleiri athugasemdum og fyrirsögnum bætt við spilið. Í núverandi mynd eru kommentaspjöldin 320 talsins og fyrirsagnaspjöldin alls 80.

Með því að leggja fé til söfnunarinnar geta fjárfestar tryggt sér eintak af spilinu. Alls hafa 162 þegar tryggt sér eintak en aðspurður segist Óli líklega geta prentað um 1.000 eintök. Afgangurinn fer í almenna sölu og Óli segir að spilið muni a.m.k. rata í hillur verslananna Nexus og Spilavina.

Von er á fyrstu eintökum úr prentum í nóvember.

Þekkja húmor meðspilara

Aðspurður hvernig tilfinning það hafi verið að róta í kommentakerfunum segir hann ferlið hafa verið mjög skemmtilegt. Þá segir hann að athugasemdirnar hafi ekki mátt vera of sértækar eða andstyggilegar og að engar séu ærumeiðandi. „Það er hins vegar alveg hægt að búa til eitthvað mjög ósmekklegt með að sameina komment og fyrirsögn. Það er bara val þeirra sem eru að spila,“ segir Óli glettinn og bætir við að hann hafi sparað helling sem annars hefði farið í prófarkalestur þar sem allar stafsetningavillur fengu að standa óhreifðar.

„Það er skemmtilegt hvernig hægt er að taka fullkomlega eðlilega fyrirsögn og eðlilegt komment en búa til eitthvað fáránlegt og snúa öllu á haus,“ segir hann og bendir á að spilið gangi jafnframt út á það að þekkja húmor meðspilara.

Fyrir ofan má sjá nokkrar athugasemdir úr spilinu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK