Laun opinberra starfsmanna hækka meira

Áhrifa kjarasamninga KSÍ, SA og ASÍ gætir í tölunum.
Áhrifa kjarasamninga KSÍ, SA og ASÍ gætir í tölunum. mbl.is/Golli

Laun opinberra starfsmanna hækkuðu meira en laun á almennum vinnumarkaði milli ára. Laun opinberra starfsmanna hækkuðu að meðaltali um 7,8 prósent á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra en hækkunin á almennum vinnumarkaði var 4,8 prósent. Laun ríkisstarfsmanna hækkuðu um 5,1 prósent og laun starfsmanna sveitarfélaga um ellefu prósent. 

Hagstofan greinir frá því að regluleg laun hafi að meðaltali verið 1,7 prósent hærri á öðrum ársfjórðungi 2015 en á ársfjórðunginum á undan.

Áhrifa tvennra kjarasamninga Kennarasambands Íslands gætir í tölunum auk þess sem áhrifa kjarasamninga SA og stærstu aðildarfélaga ASÍ gætir einnig. Áhrifin koma þó ekki að fullu fram fyrr en á þriðja ársfjórðungi.

Frá fyrri ársfjórðungi var hækkun reglulegra launa eftir starfsstétt á bilinu 0,8 prósent til 3,3 prósent. Laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkuðu mest en laun iðnaðarmanna minnst milli ársfjórðunga.

Mikil hækkun í samgöngum og flutningum

Árshækkun frá öðrum ársfjórðungi 2014 var mest hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki eða um 6,8 prósent en minnst hjá iðnaðarmönnum eða um 2,7 prósent. Á sama tíma hækkuðu regluleg laun tækna og sérmenntaðs starfsfólks um 6,3 prósent, skrifstofufólks um 5,4 prósent, verkafólks um 4,9 prósent, sérfræðinga um 4,4 prósent og stjórnenda um 3,3 prósent.

Frá fyrri ársfjórðungi mældist hækkun reglulegra launa mest í atvinnugreinunum samgöngum og flutningum annars vegar og verslun og viðgerðarþjónustu hins vegar. Í þessum atvinnugreinum hækkuðu regluleg laun um 2,7 prósent frá fyrri ársfjórðungi. Á sama tímabili hækkuðu laun um 1,7 prósent í byggingarstarfsemi, 1,3 prósent í iðnaði og 0,8 prósent í fjármálaþjónustu.

Árshækkun frá öðrum ársfjórðungi 2014 var mest í samgöngum eða um sjö prósent en minnst í fjármálaþjónustu eða um 3,7 prósent.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK