Fjárfestirinn sem hætti í Harvard

Í Hörpunni í ágúst þegar skrifað var undir samninginn um …
Í Hörpunni í ágúst þegar skrifað var undir samninginn um Marriott hótel við Hörpu. Á myndinni eru frá vinstri: Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Richard L. Friedman, forstjóri Carpenter & Company fyrir miðju, Sandeep Walia fyrir hönd Marriott hótelanna og fjárfestirinn Eggert Dagbjartsson.

Í síðustu viku sendi íslenski fjárfestirinn Eggert Dagbjartsson, sem kemur að Hörpuhótelsverkefninu, póst á Höskuld Ólafsson, bankastjóra Arion banka, vegna samþykktar Reykjavíkur um að sniðganga vörur frá Ísrael. Höskuldur sendi bréfið áfram til Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur, en í þessari viku var ákveðið að draga samþykktina til baka á aukafundi borgarráðs.

Hafa meint áhrif sem hagsmunaaðilar höfðu á þróun þessa máls verið talsvert í umræðunni undanfarið. En hver er Eggert sem sendi upphaflega bréfið? Mbl.is skoðaði feril þessa manns aðeins nánar, en hann hefur meðal annars komið að svefnrannsóknafyrirtækinu Flögu, ferðaþjónustu á Suðureyri og nú hótelbyggingu.

Hætti í Harvard og vann sig upp til forstjóra

Eggert hefur um langt skeið verið búsettur í Bandaríkjunum, en hann starfar sem stjórnandi hjá bandaríska fjárfestingafélaginu Equity resource investments (ERI) sem er í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum. Félagið sérhæfir sig í allskonar fasteignafjárfestingum víða um Bandaríkin.

Í frétt New York Times árið 1991 kom fram að Eggert hafi fyrst farið til Bandaríkjanna árið 1977 sem skiptinemi, en hann nam Austur-Asíufræði og sögu við Harvard áður en hann hætti þar og hóf störf hjá ERI. Þar vann hann sig svo upp til stjórnanda.

Fjárfestir sjálfur í Hörpuhóteli

Aðkoma Eggerts að Hörpuhótelinu er sú að hann, í samstarfi við Carpenter & Company, hafa fjárfest í verkefninu í gegnum félagið Cambridge Plaza hotel company, en það er í gegnum hollenskt félag í þeirra eigu, en samkvæmt upplýsingum mbl.is er þar um eigin fjárfestingu Eggerts að ræða, en ekki ERI. Stjórnandi Carpenter & Company er Richard L. Friedman, en hann og Eggert höfðu áður kynnst við hóteluppbyggingu í Boston.

Í bréfi Eggerts til Höskuldar og í upptalningu á aðkomu gyðinga að hótelverkefninu nefnir hann sérstaklega Friedman, en Eggert segir ákvörðun Reykjavíkur senda þau boð að gyðingar séu ekki velkomnir til landsins.

Þegar tilkynnt var um kaup hópsins á hótelreitnum og að Marriott Edition hótel myndi rísa þar var haft eftir Höskuldi að gott væri að fá hæfa og reynda aðila að verkefninu og nefndi hann sérstaklega hótelverkefni í Norður-Ameríku.

Átti stóran hlut í Flögu 

Þrátt fyrir búsetu erlendis hefur Eggert áður verið viðloðandi innlend verkefni og fyrirtæki. Hann var meðal annars stór hluthafi í svefnrannsóknarfélaginu Flögu og var í stjórn þess frá árinu 2000. Seinna fór hann, ásamt Arion banka í málaferli við Boga Pálsson, fjárfesti og stjórnarformann félagsins, vegna viðskipta hans með bréf í félaginu.

Eggert er einnig stjórnarformaður ferðaþjónustufyrirtækisins Fisherman fishing village á Suðureyri á Vestfjörðum. Fyrirtækið rekur hótel, veitingastað og fiskiskóla og hefur verið byggt upp jafnt og þétt frá árinu 2000.

Vítisenglar og dýrasta íbúð landsins

Árið 2012 varð Eggert svo fórnarlamb svika í tengslum við mótorhjólaklúbbinn Vítisengla, en við tugmilljóna svik meðlima félagsins hér á landi af Íbúðalánasjóði var meðal annars notast við félagið Saffran ehf., sem Björg Bergsveinsdóttir, eiginkona Eggerts, hafði stofnað.

Björg var einnig í fréttum nýlega, en dýrasta íbúð landsins, sem hún á, var forsíðumynd tímaritsins Húsa og híbýla. Er íbúðin í Skuggahverfinu, en allar innréttingar voru sérsmíðaðar hérlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK