70-90 milljarðar í fyrsta hluta

Keflavíkurflugvöllur eftir framkvæmdir í samræmi við Masterplanið.
Keflavíkurflugvöllur eftir framkvæmdir í samræmi við Masterplanið. Mynd/Isavia

Áætlaður heildarkostnaður við fyrsta áfanga í svokölluðu Masterplani Keflavíkurflugvallar er 70 til 90 milljarðar króna og gætu áfangarnir orðið um tveir til þrír í heildina. Gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar verði fjármagnaðar af tekjum flugvallarins og án aðkomu ríkisins. 

Framkvæmdir eiga að hefjast á næsta ári og að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, má segja að fyrsti áfangi verði um sjötíu þúsund fermetrar að stærð og að líkindum munu um eitt þúsund manns starfa við uppbygginguna í fimm ár.

Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar, eða Masterplanið, til ársins 2040 var kynnt í dag en það tekur á öllu skipulagssvæði flugvallarins og nærumhverfis. Í planinu er m.a. gert ráð fyrir tvöföldun flugstöðvarinnar, nýrri norður-suður flugbraut og fleiri flugstæðum.

Planið var fyrst kynnt í vor en síðan hefur Isavia átt um fimmtíu fundi með allt að 400 hagsmunaaðilum. Í ræðu Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia, í dag kom fram að ýmsar breytingar hefðu verið gerðar á tillögunni og var tekið var tillit til ábendinga hagsmunaaðila. Hann segir landnotkunaráætlun Masterplansins hafa tekið breytingum sem og skipulag fraktsvæðis, Háaleitishlaðs og hönnun flugstöðvarinnar sjálfrar.

Í planinu er m.a. gert ráð fyrir tvöföldun flugstöðvarinnar, nýrri …
Í planinu er m.a. gert ráð fyrir tvöföldun flugstöðvarinnar, nýrri norður-suður flugbraut og fleiri flugstæðum. Mynd/Isavia

Fyrsti áfanginn sá stærsti

Hægt á að vera að taka á móti allt að 14 milljónum farþega á hverju ári þegar framkvæmdum verður lokið, sé miðað við sömu dreifingu álags og er nú. Dreifist álag með jafnari hætti yfir sólahringinn en nú er getur flugvöllurinn tekið á móti allt að 25 milljónum farþega.

Samkvæmt áætlunum gætu farþegarnir verið 14 milljónir árið 2040, en verði það fyrr á flugvöllurinn engu að síður vera í stakk búinn til að taka á móti umræddum fjölda þar sem stækkunin verður framkvæmd í nokkrum áföngum og mun stærð þeirra ráðast af því hversu mikil og hröð farþegafjölgunin verður.

Ljóst er þó talið að fyrsti áfanginn verði stór vegna mikillar uppsafnaðar þarfar til afkastaaukningar en líkt og áður segir er áætlaður heildarkostnaður við áfangann um 70 til 90 milljarðar króna. Að sögn Guðna Sigurðssonar er þetta meirihluti heildarkostnaðarins og aðspurður segir hann að áfangarnir gætu orðið um tveir til þrír talsins. Von er á nákvæmari kostnaðargreiningu með árinu þar sem enn er eftir að klára hönnunarvinnu og fá tilboð í verkið.

„Okkur Íslendingum hefur stundum verið legið á hálsi fyrir að hugsa ekki nægilega fram í tímann. Við séum skorpuþjóð og séum vanari því að stökkva til og bregðast við aðstæðum en að setjast yfir áætlanir fram í tímann. „Þetta reddast,“ er setning sem sumum þykir lýsandi fyrir okkur,“ sagði Björn Óli við kynningu á planinu í dag og bætti við að sú staða mætti ekki skapast að Keflavíkurflugvöllur verði flöskuháls í þeirri uppbyggingu ferðamannaiðnaðarins sem komi til með að skila miklu til þjóðarbúsins á komandi árum.

Ráðist var fyrst í breytingar á verslunarsvæði til þess að …
Ráðist var fyrst í breytingar á verslunarsvæði til þess að tryggja tekjustreymi að sögn upplýsingafulltrúa. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Vel í stakk búin fyrir fjárfestingar“

Líkt og áður segir er gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar verði fjármagnaðar af tekjum flugvallarins og án aðkomu ríkisins. Guðni Sigurðsson segir að ákveðið hafi verið að tryggja tekjumyndun, m.a. með því að fara í breytingar á verslunarsvæði flugvallarins, til þess að auka tekjustreymi áður en farið var í þessar stórframkvæmdir. Um helmingur tekna Isavia stafar frá verslunarsvæðinu á móti þeim helmingi er stafar frá notkunargjöldum flugfélaga.

Þá bendir hann á að Isavia hafi verið að safna upp eigin fé undanfarin ár en í ársreikningum félagsins má sjá að það hefur vaxið úr 10,9 milljörðum króna árið 2011 í 17 milljarða á síðasta ári. „Líkt og mörg önnur fyrirtæki komum við illa út úr bankahruni með miklar erlendar skuldir en við höfum nýtt tækifærið til þess að safna upp góðri eiginfjárstöðu og erum vel í stakk búin til þess að fara af stað með þessar framkvæmdir,“ segir Guðni.

Hann segir það vera ríkisins að skoða aðrar leiðir ef áhugi sé fyrir því og bætir við að einhver áhætta fyrir eiganda fyrirtækis sé alltaf fólgin í svo miklum fjárfestingum, þrátt fyrir að það þyki nokkuð öruggt að umferð komi til með að aukast á næstu árum. „Það er alltaf eigandans að ákveða hvort hann vilji að fyrirtækið fari úti svo miklar fjárfestingar eða hvort hann vilji fremur að aðrir aðilar taki þá áhættu,“ segir hann en hér er það fjármálaráðuneytið sem er fulltrúi eigandans, sem er íslenska þjóðin.

Hægt á að vera að taka á móti allt að …
Hægt á að vera að taka á móti allt að 14 milljónum farþega á hverju ári þegar framkvæmdum verður lokið, sé miðað við sömu dreifingu og nú. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK