30 meintir skattsvikarar í rannsókn

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Skattrannsóknarstjóri mun hlutast til um rannsóknir á þrjátíu málum á næstum dögum og vikum sem byggð eru á skattagögnunum sem voru keypt af erlendum huldumanni fyrir 37 milljónir króna í byrjun sumars.

Gögnin sem fengust afhent tengdust alls ríflega 400 fé­lög­um í eigu Íslend­inga í skattaskjólum erlendis.

Á bak við þessi mál standa þrjátíu einstaklingar og eru fjárhæðirnar verulegar. Að sögn Bryn­dísar Kristjáns­dótt­ur, skatt­rann­sókn­ar­stjóra, má í einhverjum málum má telja þær í tugum og hundruðum milljóna króna.

Þrátt fyrir þetta er ekki víst að skattstofninn muni að lokum miðast við þessar tölur og þorir hún því ekki að áætla hversu miklu málin muni skila í ríkiskassann.

Fleiri mál gætu komið aftur

Bryn­dís seg­ir að embættið muni fyrst fara í alvarlegustu málin og síðan verða önnur gögn send til ríkisskattstjóra sem metur hvort ástæða sé til þess að fara í eftirlitsaðgerðir á grundvelli þessara gagna. Ef svo verður, getur verið að fleiri mál tengd þessum hópi komi aftur til skattrannsóknarstjóra.

„Þarna er verið að taka það sem er toppurinn ef svo má segja,“ segir Bryndís og bætir við að allur tíminn, eða tæpir fimm mánuðir, hafi einvörðungu farið í þessi mál.

Aðspurð hvort einhver af málunum hafi verið fyrnd segir Bryndís að í einhverjum tilvikum hafi verið farið jafn langt aftur og lög heimila. Skattalagabrot fyrnast á sex árum og því er ekki hægt að endurákvarða skatt vegna vantalinna tekna frá 2008 eða fyrr.

Einstaklingarnir sem standa á bak við fyrrnefnd mál, sem embættið mun rannsaka frekar, eru ekki meðvitaðir um að mál þeirra séu á borði skattrannsóknarstjóra. 

Á næstu dögum verður þeim formlega tilkynnt um rannsókn og eftir atvikum lýkur henni með niðurstöðu um undandrátt. Ef málin eru talin alvarleg eftir lokarannsókn og fjárhæðir háar verður þeim vísað til lögreglu eða sérstaks saksóknara sem tekur ákvörðun um framhaldið.

Nýtt á skynsamlegan hátt

Aðspurð hvort niðurstaðan teljist ásættanleg miðað við þá fjárhæð sem greidd var fyrir gögnin segir Bryndís að lagt hafi verið upp með að nýta þau á sem hagkvæmastan hátt. „Það hefur eiginlega gengið betur en ég ætlaði. Ég sá fyrir mér enn meiri greiningarvinnu,“ segir hún. „Ég tel að þetta hafi verið nýtt á mjög skynsamlegan hátt.“

„Önnur leið hefði verið að fara yfir hvert einasta mál og greina það betur en ég held að tímanum sé ekki vel varið í það í ljósi annarra mála,“ segir Bryndís.

Líkt og áður segir verða þó öll gögn, að undanskildum þeim sem tengjast þessum þrjátíu málum, send áfram til ríkisskattstjóra sem leggur frekara mat á þau.

Hundruð milljóna eru undir í sumum málum.
Hundruð milljóna eru undir í sumum málum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK