„Við settum kúluna í byssuna“

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er alveg fráleitt hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessu. Þvert á fyrirheit um gagnsæi, hefur það verið í þrengstu klíkum, þegar nauðsynlegt er að tryggja gagnsæi í svona mikilvægum ráðstöfunum,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, og vísar til und­anþágu­beiðna slita­stjóra föllnu bank­anna. 

Efnahagsleg áhrif þeirra voru kynnt á blaðamannafundi í dag. SÍ telur nauðasamningsdrög uppfylla kröfur um gjaldeyrismál og efnahags- og viðskiptanefnd hefur mælt með því að undanþágubeiðnir verði samþykktar.

Árni Páll rifjar upp ummæli Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, um að aðeins ein kúla sé í byssunni í þessu máli. „Ástæðan fyrir því að það er kúla í byssunni yfir höfuð er sú að við settum hana þar,“ segir Árni og vísar til þess að Samfylkingin hafi viljað fella slitabúin undir gjaldeyrishöft á sínum tíma. Hann segir nauðsynlegt að gagnsæi sé gætt. „Við eigum alveg gífurlega mikið undir og enginn vafi á að leika á því að verið sé að gæta ýtrustu hagsmuna þjóðarinnar gagnvart erlendum kröfuhöfum,“ segir hann.

Telurðu að svo sé ekki gert?

„Það vekur athygli, það er margt sem hefur bent til þess í haust og í sumar, að kröfuhafar séu mjög ánægðir með sinn hlut í þessu máli. Og það er auðvitað verið að gefa þeim alveg gríðarlegan afslátt frá stöðugleikaskattinum og ríkisvæða áhættu, eins og með yfirtöku bankanna. Það er allavega ekkert sem bendir til þess að þeir séu áberandi ósáttir með lausnina. Þvert á móti,“ segir Árni.

Ætti það að vera lendingin í málinu?

„Lendingin þarf að vera þannig að við séum viss um að við séum að leysa vandann. Hættan er sú að við séum að hleypa þeim út með gífurlegar eignir í erlendum gjaldeyri en að þjóðin sitji áfram eftir föst í höftum. Það má ekki verða.“

Árni segir vanta útskýringar á því hvers vegna kröfuhöfum séu veittir afslættir með greiðslu stöðugleikaframlags í stað þess að þurfa að greiða stöðugleikaskatt.

„Ríkisvædd áhætta“

Í greinargerð Seðlabankans um undanþágubeiðnirnar segir að leið nauðasamninga á grundvelli stöðugleikaskilyrða sé mun áhættuminni en skattaleiðin, þar sem girt sé fyrir áhættu með margvíslegum ráðstöfunum og að áhætta vegna dómsmála verði mun minni. „Fjárhæð álagningar stöðugleikaskatts endurspeglar að hluta þessa áhættu,“ segir í greinargerð SÍ.

Um þetta segir Árni að ríkið sé í staðinn að ríkisvæða áhættu með yfirtöku banka í stað þess að áhættan sé hjá kröfuhöfum. „Það er verið að ríkisvæða gífurlega áhættu þar sem bankarnir eru ekki að skila reglulegum hagnaði. Hvernig eiga þeir að gera það? Er það með því að rukka almenning umfram það sem gert er núna? Hvernig á tekjumódel slíkra banka að vera í framtíðinni? Þetta er orðin ríkisvædd áhætta en ekki áhætta kröfuhafanna.“

Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, á fundinum í Hannesarholti í dag.
Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, á fundinum í Hannesarholti í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK