Verða hús framtíðarinnar úr plasti?

Eva Björk Ægisdóttir

Næsta bylting á fasteignamarkaðnum gæti falist í plasthúsum. Fyrirtækið Fíbra hefur hannað hús úr trefjastyrktu plasti með kjarna úr steinull. Húsin eiga að vera um tuttugu og fimm prósentum ódýrari en sambærileg hús og þurfa ekkert viðhald. Fyrsta húsið er risið og pantanir hafa verið gerðar.

Á bak við Fíbru standa Regin Grímsson, Andri Thor Gunnarsson, Helga Hinriksdóttir og Haraldur Ingvarsson. Hugmyndin fór með sigur af hólmi í Toppstöðinni, nýsköpunarþætti á RÚV, sem lauk í vikunni. 

Regin segir áferðina á húsinu líkjast keramikflís. „Menn verða yfirleitt mjög hissa þegar þeir sjá og finna áferðina,“ segir hann.

Leka ekki frekar en skip

Hugmyndin kom til í upphafi síðasta árs en Regin hefur verið að smíða skip úr trefjaplasti í fjölda ára. Hann segist hafa verið að þjálfa starfsmenn í að nota nýjar vélar til trefjaplastgerðar og fékk steinull frá Steinullaullarverksmiðjunni til þess að leika sér með. Þá sá hann hvernig hægt var að búa til kápu af réttri þykkt utan um steinullina. Hann segist strax hafa séð sparnaðinn sem í þessu gæti falist og bendir á að húsin leki ekki frekar en skipin.

Regin hefur látið prófa þolið hjá Nýsköpunarmiðstöð og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og er niðurstaðan að þetta sé um sex til sjö sinnum sterkara en reglur gera kröfur um. Húsin eru byggð sem 25 fermetra einingar sem hægt er að byggja við og stækka. Hann segir stærðinni vera engin takmörk sett.

Regin Grímsson við plasthúsið.
Regin Grímsson við plasthúsið. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

30 milljóna fjárfesting

Næsta skref er að koma upp verksmiðju til framleiðslunnar og er verið að leita að fjárfestum til þess að koma henni á koppinn. Aðspurður um stærð fjárfestingarinnar segir hann vanta um þrjátíu milljónir króna. „Þá yrðum við í mjög góðum málum,“ segir hann og bætir við að þegar sé búið að leggja inn umsókn um einkaleyfi á framleiðslunni.

Regin segist þegar hafa fengið tvær fyrirspurnir, annars vegar um að gera fimmtíu herbergja gistiheimili á Norður- og Suðurlandi og hins vegar að byggja félagsheimili fyrir siglingaklúbb.

Bráðabirgðaútreikningar gera ráð fyrir að húsin gætu verið um 25 prósent ódýrari en hefðbundin hús og verða þau með fimmtán ára ábyrgð gagnvart leka. Regin bendir á að húsin þarfnist ekki viðhalds auk þess sem þau þurfa lítið rafmagn sökum góðrar einangrunar. Þá er engin hætta á myglu.

Regin segir húsin eiga að geta verið sjálfbær í framtíðinni þannig að óþarft verði að kaupa orku til kyndingar. Hann bendir á einangrunina og segir að einnig verði hægt verði að koma upp sólar- eða vindsellum.

„Þetta er miklu betra en önnur hús,“ svarar Regin aðspurður um gæðin og vísar til fyrrgreindra atriða.

Aðspurður hvort þetta hafi verið gert áður segir hann að um fjörtíu hús úr trefjaplasti hafa verið smíðuð í Þýskalandi fyrir tæpum fimmtíu árum síðan. Hópurinn fór að skoða húsin og talaði við dætur hönnuðarins. Hann segir tvær meginástæður hafa verið fyrir því að hugmyndin náði ekki lengra. Annars vegar hafi hönnuðurinn ekki haft aðgengi að steinullinni, sem sé lykilatriði, og hins vegar náði hann ekki samstarfi við arkitekta. Regin bendir á að húsin standi ennþá og að ekkert sjáist á yfirborðinu. Þau hafi verið þvegin nokkrum sinnum með háþrýstidælu en annars hafi þau ekki þurft neitt viðhald.

Vistvænni kostur

Regin bendir jafnframt á að plasthúsin séu mun vistvænni kostur en þau steinsteyptu og er framleiðslan einungis um fjórðungur af vistfræðilegu spori hefðbundinna steinsteypuframkvæmda. 

Fíbra hefur þegar komið upp einu húsi við gömlu varaaflsstöðina við Rafstöðvarveg í Elliðaárdal og verður það opið í dag á milli klukkan tíu og fjögur fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða það.

Þá hefur Fíbra einnig verið boðið að þátt í ráðstefnu á vegum Reykjavíkurborgar sem verður haldin í Ráðhúsinu þann 14. nóvember nk. undir yfirskriftinni „Leiðir til að lækka byggingarkostnað“. Þar verður hægt að skoða sýnishorn af trefjaplastinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK