60% fleiri búa í foreldrahúsum

Mikil uppsöfnuð þörf er á fasteignamarkaðnum.
Mikil uppsöfnuð þörf er á fasteignamarkaðnum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Til að mæta eðlilegri þörf á fasteignamarkaði þarf að klára sex til sjö fullbúnar íbúðir alla virka daga ársins. Framboð á húsnæði hefur ekki aukist í takt við þarfir og vaxandi hópur fólks fær ekki húsnæði við hæfi.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins á íbúðamarkaðnum. Samtökin stóðu fyrir opnum fundi um íbúðamarkaðinn á Grand Hótel í morgun. 

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, hélt erindi undir yfirskriftinni: „Hvað þarf að byggja mikið og hver er uppsöfnuð þörf?“ Hann sagði augljósar vísbendingar vera um skort og spennu á fasteignamarkaðnum og benti á vandræði ungs fólks, fjölgun feðramanna, spennu á leigumarkaði og hækkandi fasteignaverð. „Í okkar augum er ljóst að betra jafnvægi þarf að nást,“ sagði Bjarni en bætti þó við að við mættum ekki færa okkur yfir í offramboð líkt og áður hefur verið gert.

Mamma og pabbi orðin vinsælli?

Bjarni benti á að árleg fjölgun upp á 1.000 landsmenn kallaði almennt á 500 nýjar íbúðir. Á árunum 2009 til 2014 var árlega lokið við 950 íbúðir á ári á meðan árleg íbúafjölgun var 2.500. Þessi mismunur bjó til húsnæðisþörf upp á um 2.500 til 3.000 íbúðir sem enn hefur ekki verið mætt. 

Einnig kom fram að fjöldi þeirra einstaklinga sem búa hjá foreldrum sínum hefur aukist gífurlega frá árinu 2005 og sagði Bjarni að ástæðuna mætti líklega ekki rekja til aukinna vinsælda mömmu og pabba, heldur sé þetta einfaldlega afleiðing íbúðaskorts.

Árið 2005 bjuggu tíu prósent einstaklinga á aldrinum 25 til 34 ára aldri hjá foreldrum sínum samkvæmt rannsókn Capacent. Árið 2014 var hlutfallið komið í fjórtán prósent, eða um 6.700. Á níu árum hefur ungu fólki sem býr hjá foreldrum sínum því fjölgað um sextíu prósent. 

Vantar 2.500 til 3.000 íbúðir

Auk þessa má greina að þarfir eldri kynslóða séu að breytast. Margir af stærstu fæðingarárgöngum Íslendinga eru fæddir á „baby-boom“-árunum 1955 til 1965 og í greiningu SI kemur fram að húsnæðisþörf þessa hóps sé að breytast og kalla á minna húsnæði. Þarfir elstu kynslóðarinnar séu þá einnig að breytast en í dag er talið vanta um 530 hjúkrunarrými og hvert pláss á hjúkrunarheimili kostar ámóta mikið og lítil ný íbúð.

Ætla má að uppsöfnuð þörf frá árunum 2011 til 2014 fyrir íbúðarhúsnæði sé um 2.500 til 3.000 íbúðir. Undir lok tímabilsins frá 2015 til 2018 má reikna með að framboð verði komið í takt við þörf en framleiðslan þarf að nema um 10.000 íbúðum á tímabilinu.

Jón Bjarni Gunnarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SI, ræddi um byggingarmagn á höfuðborgarsvæðinu og vísaði til þess að á þessu og næsta ári væri verið að mæta nýrri íbúðaþörf en hins vegar er ekki verið að saxa á fyrrnefnda uppsafnaða þörf.

Skattlaust ár?

Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs, ræddi um sýn unga fólksins á markaðinn og benti á að samkvæmt könnunum vilji ungt fólk frekar kaupa sér íbúð en að fara á leigumarkaðinn. Samkvæmt öðrum könnunum virðast hins vegar flestir einungis sjá fram á að geta gert það eftir meira en fimm ár eftir útskrift. Aron vísaði til þess að margt gæti breyst á tímabilinu og bætti við að hætta væri á að fólk myndi festast á leigumarkaðnum.

Hann sagði nauðsynlegt að halda ungu fólki á landinu, þar sem margir væru að hugsa til annarra landa vegna ástandsins, og sagði lausnir vanta. Þar benti hann t.d. á möguleikann á skattlausu ári til þess að hægt væri að safna hratt og koma sér þannig út á fasteignamarkaðinn.

Ungt fólk á erfitt með að komast inn á fasteignamarkaðinn.
Ungt fólk á erfitt með að komast inn á fasteignamarkaðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK