Legið skattlagt um allan heim

Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Hvers vegna er verið að skattleggja á mér legið?“ spurði þingkonan Heiða Kristín Helgadóttir á Alþingi í vikunni. Eflaust hafa margar konur spurt sig sömu spurningar en í dag er 24% virðisaukaskattur á dömubindi og túrtappa á Íslandi. Á þinginu í gær spurði Heiða Kristín fjármálaráðherra hvort unnið væri að því að lækka virðis­auka­skatt á þær vör­ur. 

Í aðgerðum fjármálaráðherra um að afnema vörugjöld og breyta virðisaukaskattkerfinu var skattur á smokka, bleiur og bleiufóður lækkaður en skatturinn á dömubindi, túrtappa og aðrar hreinlætisvörur kvenna hefur hinsvegar staðið í stað í 24%. 

Skattur á þessar vörur, eða „túrskatturinn“ er þó ekki alíslenskt fyrirbæri. Virðist það vera nokkuð algengt að konur greiði skatt fyrir þessar vörur, sem eru án efa nauðsynjar fyrir þær sem fara á blæðingar og kjósa að nota dömubindi eða túrtappa.

Túrskattinum mótmælt í París í síðustu viku.
Túrskattinum mótmælt í París í síðustu viku. "Þarf maður að heita George til að vera tekinn alvarlega?" var spurt. AFP

Túrskatturinn nær upp í 27%

Síðustu vikur hefur skapast umræða um túrskattinn, bæði í Bretlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum en í sumar var skatturinn afnuminn í Kanada við mikinn fögnuð kvenna um allan heim.

Það virðist sem að 24% skatturinn hér á landi sé í hæsta lagi en það eru margar þjóðir með hærri virðisauka en Íslendingar. Í grein Los Angeles Daily News kemur fram að í Ungverjalandi greiða konur 27% skatt á dömubindi og túrtappa á meðan skattur hefur verið afnuminn á mjólkur- og bakstursvörur, ásamt bókum og lyfjum. Hin frjálslyndu en á sama tíma skattglöðu Norðurlönd, Danmörk, Svíþjóð og Noregur, leggja 25% skatt á þessar vörur.

Þó að umræða um túrskattinn sé áberandi í mörgum löndum Evrópu hafa sum stjórnvöld komist upp með það að hækka túrskattinn. Til að mynda hefur hann hækkað úr 13% í 23% í Grikklandi og rímar það við skattlagningu í öðrum Evrópulöndum. Á Ítalíu er skatturinn 23%, 20% í Frakklandi og 19% í Þýskalandi. Þar hefur fólk safnað undirskriftum til stjórnvalda þar sem þess er krafist að skattur á þessum vörum verði minnkaður verulega eða afnuminn.

Afrakstur ósanngjarns samfélags

Í Bretlandi, þar sem skatturinn á hreinlætisvörur kvenna er 5% hefur umræða skapast í samfélaginu um skattinn sem náði alla leið inn á þing. Hér má sjá þingkonuna Stella Creasy ræða túrskattinn á breska þinginu. Bendir hún á að flokkun dömubinda og túrtappa sem „lúxusvörur“ en ekki nauðsynjar sé afrakstur ósanngjarns samfélags þar sem þarfir kvenna eru ávallt fyrir neðan þarfir karla.

Þing­kona Verka­manna­flokks­ins, Paula Sherriff, orðaði það svo að virðis­auka­skatt­urinn (VAT) væri í raun píku­skatt­ur (e. vag­ina added tax). „Skatt­ur á kon­ur, klárt og aug­ljóst.“ 

Skattfrjáls dömubindi í Írlandi

Enginn skattur er greiddur á dömubindi og túrtappa í Írlandi og er það eina Evrópuríkið þar sem ekki er lagður virðisaukaskattur á dömubindi og túrtappa. Það er einnig gert í Jamaica, Nicaragua, Nigeríu, Tansaníu og Líbanon.  Í sumar var það síðan Kanada sem bættist í hópinn.

Í Bandaríkjunum fer skattlagningin á þessar vörur eftir hverju ríki fyrir sig en hann er almennt á bilinu 4 til 9%. Í ríkjum eins og Maine, New Jersey og Pennsylvanía er hinsvegar enginn skattur greiddur á þessar vörur en sú stefna er þó í minnihluta. Flest ríki Bandaríkjanna leggja skatt á þessar vörur, þá almennan söluskatt. Þau ríku eru m.a. Kalifornía, Texas, og New York. Skatturinn er eins og fyrr segir misjafn eftir ríkjum en í New York til dæmis er söluskatturinn 4% og síðan leggur hver sýsla ofan á vöruna 3 til 4 ¾% skatt.

Enginn skattur á mitt leg!
Enginn skattur á mitt leg! AFP

Hvað er virðisaukaskattur?

Virðisaukaskattur er almennur neysluskattur sem er innheimtur af innlendum viðskiptum á öllum stigum. Í dag er almennt þrep í virðisaukaskatti 24%.  Þó eru innheimt 11% af sumri vöru og þjónustu. Sum þjónusta ber ekki virðisaukaskatt svo sem heilbrigðisþjónusta.

Virðisaukaskattur var tekinn upp með lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gildi tóku 1. janúar 1990 og leystu af hólmi áðurgildandi söluskattslög. Samkvæmt handbók Ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt er hann vörsluskattur og almennur neysluskattur sem innheimtur er af innlendum viðskiptum á öllum stigum. Hann er einnig innheimtur við innflutning vöru og þjónustu.

Öll vara og þjónusta, sem ekki er sérstaklega undanþegin skattinum, er skattskyld. Allir rekstraraðilar, sem hafa með höndum sölu eða afhendingu á vöru eða skattskyldri þjónustu, eiga að innheimta og skila virðisaukaskatti.

Túrtappar, dömubindi og aðrar slíkar hreinlætisvörur fyrir konur eru með …
Túrtappar, dömubindi og aðrar slíkar hreinlætisvörur fyrir konur eru með virðisaukaskatti í flestum ríkjum Evrópu. Mynd/Wikipedia

Sjáum við fram á breytingar?

Í nýlegri umfjöllun BBC um túrskattinn er bent á að í Slóvakíu sé greiddur 20% skattur á dömubindi og túrtappa. Rætt er við slóvaska aðgerðarsinnann Diana Fabianova sem segir engin áform um að lækka skattinn til tals hjá stjórnvöldum. „Þegar að kynbyltingin og femínismi voru í gangi í vestrinu, vorum við undir kommúnistastjórn. Og það er enn hægt að finna fyrir því að við misstum af mikilvægum breytingum,“ sagði Fabianova.

Ef marka má orð Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, á þinginu í gær stendur heldur ekki til að afnema eða lækka skatta á hreinlætisvörum kvenna á Íslandi. Í svari við fyrirspurn Heiðu Kristínar sagði Bjarni að breyt­ing­ar á virðis­auka­skatt­kerf­inu hafi verið ætlað að létta barna­fjöl­skyld­um inn­kaup. Kerfið yrði aldrei full­gert og alltaf væri hægt að týna til vör­ur sem hægt væri að færa rök fyr­ir því að ættu að vera í hærra eða lægra skattþrepi. Bjarni viðraði skoðun sína á því að halda ætti úti sterku virðis­auka­skatt­kerfi og draga úr mun á milli þrep­anna. Það muni gefa svig­rúm til þess að draga úr bein­um skött­um eins og tekju­skatti.

Á móti benti Heiða Krist­ín á að ein­mitt þess­ar vör­ur gætu orðið til þess að hjálpa barna­fjöl­skyld­um enda væru þær mikið notaðar af mæðrum. Spurði hún jafn­framt hvort að ekki hafi staðið til að breyt­ing­ar á virðis­auka­skatt­kerf­inu enduðu með því að eitt þrep stæði eft­ir.

Bjarni sagði að hans skoðun væri að á end­an­um væri aðeins eitt virðis­auka­skattþrep en hann teldi hins veg­ar ekki stuðning við það í þing­inu að sinni.

En í síðasta mánuði sagði David Gauke, aðstoðarfjármálaráðherra Bretlands að þeir myndu hvetja til þess að Evr­ópu­sam­bandið og aðild­ar­lönd þess hætti að skatt­leggja túr­tappa og aðrar hrein­lætis­vör­ur fyr­ir kon­ur sem lúxusvör­ur. Sú ummæli komu í kjölfar undirskriftasöfnunar þar sem 252 þúsund skrifuðu undir. Með undirskriftunum krafðist fólkið þess að túrskatturinn yrði afnuminn.

Nú er bara að bíða og sjá, hvort að afkomendur okkar muni einnig þurfa að greiða skatt af því að fara á blæðingar eða hvort þessar vörur hætti að verða „lúxus“ og verði viðurkenndar sem nauðsynin sem þær eru. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK